Tuesday, May 31, 2016

Djúsí pizzur á þrjá vegu


Í síðustu viku átti ein af mínum bestu vinkonum afmæli og það vildi einnig þannig til að sama dag var fyrsti þátturinn af nýju matreiðsluþáttunum mínum að byrja, það var þess vegna heldur betur tilefni til þess að bjóða heim í pizzapartí og smá freyðvínsdrykkju.

Þegar ég fæ fólk heim í mat þá elska ég að bera fram einfalda rétti, ég nenni ómögulega að standa sveitt þegar gestirnir mæta og vil heldur hafa þetta afslappað og þægilegt. Það er líka mikill plús að bjóða upp á mat sem þú getur undirbúið með svolitlum fyrirvara. Eitt af því sem mér þykir skemmtilegast að bjóða upp á eru pizzur á nokkra vegu, það er brjálæðislega einfalt og slær alltaf í gegn.

Ég bauð stelpunum upp á þrjár pizzur, hráskinkupizza með ferskum tómötum, klettasalati og parmesan, ostaveislu sem er mitt uppaáhald borin fram með sultu og mexíkósk pizza með ostasósu, kjúkling og doritos snakki. Hér koma uppskriftirnar, ég mæli með að þið prófið þessar næst þegar ykkur langar í pizzu og ég vona að þið njótið vel. 


Pizzadeig 

·                     2 1/2 dl volgt vatn 
·                     2 tsk þurrger 
·                     2 tsk hunang 
·                     2 msk ólífuolía 
·                     400 - 450 g brauðhveiti frá Kornax
Aðferð: 
  1. Leysið gerið upp í volgu vatni og það er afar mikilvægt að gerið sé volgt.
  2. Bætið hunangi saman við og hrærið vel í. Þegar byrjar að freyða í skálinni er gerið klárt.
  3. Blandið olíu og hveitinu saman við í hrærivélaskál. Þið getið auðvitað hnoðað deigið í höndunum en mér finnst langbest að nota hnoðarann á hrærivélinni, það ferli tekur um það bil 4 - 6 mínútur. 
  4. Deigið er tilbúið þegar það er orðið að kúlu og klístrast ekki við hrærivélaskálina. Setjið viskastykki yfir skálina og leyfið deiginu að hefa sig í klukkustund. 


Ostaveisla 

Þessi pizza er án efa ein af mínum uppáhalds pizzum og við vorum allar sammála um að þessi væri æðislega góð, ef þið eruð mikið fyrir ost þá þurfið þið endilega að prófa þessa. Fyrr en síðar!

Hráefni:
  • 1 pizzadeig
  • 2 - 3 hvítlauksolía 
  • Rifinn mozzarella ostur 
  • Rifinn parmesan ostur 
  • 1 camenbert
  • 1/2 piparostur 
Aðferð: Fletjið út pizzadeigið og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið botninn með hvítlaukssósunni og dreifið rifnum osti yfir. Skerið camenbert og piparost í bita og setjið á botninn. Bakið við  220°C í 10 - 12 mínútur. Berið fram með sultu og njótið vel. 



 Það er nauðsynlegt að skála á góðum dögum. Við fengum okkur brjálæðislega gott vín í fordrykk sem passaði mjög vel með pizzunum, ég verð að mæla með þessu víni. Ég hafði ekki smakkað það áður en ég mun sannarlega kaupa það aftur. Ótrúlega fallegt og gott vín sem er á fínu verði, það heitir Aviva Pink Gold. Mæli með því í sumar!


Mexíkósk pizza með ostafyllingu


Þessi pizza er undursamlega góð og stelpurnar voru hrifnastar af henni, en ostasósan setur punktinn yfir i-ið.

Hráefni:
  • 1 pizzadeig 
  • Ostasósa 
  • 1 mexíkóostur 
  • 1 dós sýrður rjómi 
  • 1 kjúklingabringa eða sambærilegt magn af kjúklingakjöti 
  • 1/2 rauðlaukur 
  • Rifinn ostur 
  • Doritos
Aðferð: 

Útbúið ostasósuna með því að skera mexíkóostinn í teninga og mauka saman við sýrða rjómann með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Fletjið út pizzadeigið og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið botninn með ostasósunni og dreifið rifnum osti yfir. Skerið kjúklinginn í bita og dreifið yfir ásamt smátt skornum rauðlauk.  Bakið við 220°C í 10 - 12 mínútur. Sáldrið Doritos flögum yfir pizzuna þegr hún kemur út úr ofninum. 





Pizza með hráskinku

Ég fæ aldrei nóg af þessari pizzu og gjörsamlega elska hana. Hún er agalega góð með rauðvínsglasi, já ég segi ykkur það satt. 

Hráefni:
  • 1 pizzadeig
  • 1 skammtur pizzasósa (mér finnst líka gott að setja tómata passata)
  • Rifinn ostur 
  • 1 bréf hráskinka ca. 8 sneiðar
  • Klettasalat, magn eftir smekk
  • Tómatar
  • Parmesan ostur 
  • Salt og nýmalaður pipar 
Aðferð: Fletjið út pizzadeigið og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Smyrjið botninn með sósunni og dreifið rifnum osti yfir. Bakið við 220°C í 10 - 12 mínútur. Raðið hráskinkunni á pizzuna þegar hún kemur út úr ofninum ásamt klettasalti, smátt skornum tómötum og nýrifnum parmesan. 




Ég vona að þið hafið fengið hugmyndir að góðu pizzakvöldi kæru vinir. 
Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 


No comments:

Post a Comment