Sunday, June 5, 2016

Súkkulaðikakan sem allir elska

Það kannast nú líklega flestir við þessa uppskrift en hún er gífurlega vinsæl á mínu heimili og í minni fjölskyldu. Mamma bakaði þessa köku ósjaldan fyrir okkur og ég baka hana mjög oft hér heima. Í dag var kósí dagur hjá okkur fjölskyldunni, Ingibjörg Rósa var svolítið slöpp og ákváðum við þess vegna að hafa það rólegt í dag. Þá fannst mér nú tilvalið að skella í þessa einföldu og góðu súkkulaðiköku sem við borðuðum með bestu lyst, fátt sem toppar nýbakaða súkkulaðiköku og ískalt mjólkurglas. Klassík sem enginn fær leið á.

 Þessa dagana er ég meðal annars að undirbúa tökudaga fyrir bókina mína, kökubókina sem kemur út í haust. Um 80 uppskriftir að ljúffengum kökum saman í eina bók! Ég get ekki beðið, ætla að eyða sumarfríinu mínu í bakstur og ljósmyndatökur með frábærum ljósmyndara honum Karl Petterson. Það  verður gaman, svo ætla ég einnig að gifta og flytja... þetta verður heldur betur fjörugt sumarfrí. Þetta var smá útúrdúr en ég fann fyrir fiðring í dag þegar ég bakaði þessa köku og fann fyrir mikilli tilhlökkun fyrir komandi bakstursmánuðum. 

En hér er uppskriftin.... njótið vel <3 



Mömmudraumur

  • 150 g sykur
  • 150 g púðursykur
  • 130 g smjör
  • 2 egg
  • 260 g KORNAX hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • salt á hnífsoddi
  • 50 g kakó
  • 2 dl mjólk
Aðferð:
  1. Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós. 
  2. Bætið eggjum  saman við, einu í einu.
  3. Blandið þurrefnum út í deigið ásamt mjólkinni.
  4. Skiptið deiginu niður í tvö smurð hringlaga form og bakið við 180°C í 20 – 25 mínútur.

Súkkulaðikrem 

  • 500 g flórsyku
  • 60 g kakó
  • 1 egg
  • 80 g smjör
  • 1 tsk vanilla (extract eða dropar)
  • 4 msk sterkt uppáhellt kaffi 
Aðferð:
  1.   Bræðið smjör við vægan hita
  2.   Blandið öllu saman í hrærivélaskál og þeytið þar til kremið verður silkimjúkt og fallegt. 

Það er mjög mikilvægt að kæla kökubotnanna áður en þið smyrjið kreminu á milli botnanna og yfir alla kökuna. Skreytið gjarnan með kökuskrauti eða ferskum berjum.











Ég vona að þið hafið átt góða helgi með fólkinu ykkar kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups


No comments:

Post a Comment