Saturday, June 30, 2012

New York

 Byrjaði gærdaginn á því að fara í Magnolia Bakery, komst í kökuvímu, keypti mér krúttlegar bollakökur og límónaði, fann mér góðan stað í Central park, sólaði mig, borðaði kökur og skoðaði nýju kökubókina mína sem ég keypti í þessu dásamlega bakarí. Ég hef sjaldan verið jafn sátt og sæl á einu augnabliki. Um helgina ætla að baka köku í stíl við Magnolia. 

En nú ætla ég að drífa mig út og eyða kvöldinu með elsku vinkonum mínum, það verður stuð. 
Ég vona að þið eigið góða helgi  

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, June 28, 2012

Pestófiskréttur


Fiskur er í miklu uppáhaldi hjá mér, það er ansi skemmtilegt að prufa sig áfram og prufa nýja rétti. Þessi réttur er ansi góður að mínu mati, með smá Ítölsku ívafi þó svo að ég hafi litla hugmynd um Ítalska matreiðslu þá ætla ég samt að segja að þessi réttur sé með Ítölsku ívafi. Þessi réttur hentar sérlega vel hvenær sem er. 

Ég vona að þið njótið vel. 

Fiskur með pestó, ólífum og parmesan. 

2 ýsuflök (eða bara sá fiskur sem ykkur þykir bestur)
1 krukka rautt pestó
1/2 krukka fetaostur, olían má fara með
10 - 15 ólífur
6-7 kirsuberjatómatar
parmesan ostur, ferskur rifinn
salt og nýmalaður pipar

Skolið fiskinn vel. Kryddið með salti og nýmöluðum pipar, leggið fiskinn í eldfast mót. Náið ykkur í skál, hrærið saman pestóinu og fetaostinum. Dreifið blöndunni yfir fiskinn, skerið ólífur og tómata í litla bita og dreifið yfir. Kryddið með salti og nýmöluðum pipar, sáldrið smá parmesan osti yfir fiskréttinn að lokum. 

Inn í ofn við 180°C í 20 - 25 mínútur. 

Gott er að bera réttinn fram með hrísgrjónum og fersku salati. 




 Parmesan ostur, hentar vel í matargerð og er algjörlega dásamlegur. 
 Rauðvín til hliðar, því ef maður ætlar að fara til Ítalíu í huganum þá verður rauðvín að fylgja með. 



 Fallegir litir 

 Tilbúið og ljúffengt



Ekki spara parmesan ostinn því hann gefur réttinum einstaklega gott bragð. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Thursday, June 21, 2012

Súkkulaðimús


Mér finnst fátt huggulegra en að fá góða vini í mat til mín, ég reyni að vera dugleg að halda smá matarboð eða kaffiboð af og til, það eitt að setjast niður með góðum vinum, borða mat og spjalla frá sér allt vit gerir manni svo gott. Gott fyrir líkama og sál.  

Matur er fyrir mér sameiningarkraftur, ef til vill hljómar þetta klisjulega en það eru oft bestu og huggulegustu stundirnar sem ég á með fjölskyldu minni og vinum eru einmitt yfir matarborðinu. 
Að njóta þess að borða og vera saman skiptir öllu máli. 


Uppáhalds forrétturinn minn, Bruchetta með tómötum. 

Hvítlauksbrauð með osti, Haraldur fær líka forrétt :) 

Kjúklingabringur úr Einarsbúð. 
Ofnbökuð Ýsa. Uppskrift fylgir hér að neðan, að vísu notaði ég síðast lax en ýsan er ansi góð líka. 

Að mínu mati skiptir eftirrétturinn miklu máli. Oftast er maður búin að borða á sig gat en langar ef til vill í smá súkkulaði, eða ég allavega þrái oft einn súkkulaði mola eða smá ís eftir góða máltíð. Ég smakkaði þessa mús hjá frænku minni og það var ekki aftur snúið. 

Ég mæli hiklaust með súkkulaðimús í eftirrétt, músin var borin fram í kaffibollum. Mér fannst það krúttlegt við þetta tilefni, svo er líka ansi fallegt að bera hana fram í háum glerglösum. Skreyta hana með allskyns berjum, allt eftir smekk hvers og eins. 

Aðal atriðið er auðvitað að njóta og aftur njóta. 

 Dökk súkkulaðimús með ferskum berjum

Einföld og frekar létt súkkulaðimús, hentar vel sem desert. Hægt er að nota bæði ljóst sem og dökkt súkkulaði.
25 g smjör
200 g 70% súkkulaði
250 ml rjómi
3 stk. egg
2 msk. sykur
Bræðið smjör og súkkulaði saman við vægan hita í potti. Hellið súkkulaðinu síðan í skál og blandið þremur eggjarauðum saman við, blandað eggjarauðunum vel saman við súkkulaðið. Leggið súkkulaðiblönduna til hliðar. Þeytið rjóma og að því loknu bætið súkkulaðiblöndunni saman við, í þremur pörtum. Leggið blönduna til hliðar. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smátt og smátt saman við. Hrærið eggjahvítublöndunni mjög varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleikju, setjið í glös eða skál. Kælið í lágmark 3 klst.
Skreytið súkkulaðimúsina með ferskum berjum,myntulaufum og stráið smá flórsykri yfir.



Þessi stúlka heitir Sigurbjörg Heiða og hún er í miklu uppáhaldi hjá frænku sinni. 

Var svo heppin að fá dásamlegt súkkulaði frá vinkonu minni. 

Gott kvöld með góðum vinum. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Sunday, June 17, 2012

17.júní


Gleðilega þjóðhátíð kæru lesendur. Ég vona að þið eigið ljúfan dag. Á þessu heimili byrjuðum við daginn á þjóðhátíðarpönnukökum. Virkilega huggulegt :) 

Njótið ykkar í dag. 



xxx

Eva Laufey Kjaran

Saturday, June 16, 2012

Þjóðhátíðarboð


Mæli svo sannarlega með nýjasta tölublaði Gestgjafans, undir berum himni.
Sumarlegar uppskriftir og sumarkokteilar ráða ríkjum í þessu tölublaði. 

Ég gerði þátt um þjóðhátíð, þjóðhátíðarboð. Nokkrar uppskriftir sem eiga vel við á  þjóðhátíðardaginn. Ég vona að morgundagurinn verði ykkur góður því við eigum svo sannarlega að njóta hans, dagur okkar Íslendinga og okkur ber að fagna honum með pompi og prakt. 

Hipp Hipp Húrra



xxx

Eva Laufey Kjaran

Minneapolis


Kom heim í morgun frá Minnepolis. Fór þangað í fyrsta sinn í fyrra svo það var gaman að koma aftur, ansi hugguleg borg. Var svo heppin að vera með góðu fólki svo ferðin var mjög skemmtileg. 

 Borðuðum á dásamlegum stað, í forrétt fengum við bruschettu sem var algjört æði.
 Þetta pasta..þetta pasta. Ég hef ekki hætt að hugsa um það, þvílíkt gott. 
 Svo gaman að vera með Ingibjörgu elsku
 Ansi sátt með gúrme súkkulaðiköku
 Ætluðum aldeilis að slá um okkur og panta  einn drykk í eftirrétt, völdum líklega einn versta drykk sem sögur fara af og okkur fannst það fyndið. Tókum einn sopa, borguðum of mikið fyrir drykkinn og fórum upp á hótel.  
 Sprækar morgunin eftir í Mall of America, sem er svakalegt.
 Huggulegur miðbær Minneapolis

 Starbucks unaður..
 Cheesecake factory, Red velvet cheesecake... beautiful.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, June 13, 2012

Sumarlegar bollakökur


Sumarlegar og sætar bollakökur. Þessar bollakökur eru einstaklega einfaldar.
Mér finnst voðalega gaman að baka bollakökur og skreyta þær. Þær eru  einstaklega góðar nýkomnar út úr ofninum með engu kremi, nýbökuð bollakaka og ísköld mjólk. Fátt sem jafnast á við það.
Það er hægt að bæta berjum við þessa uppskrift t.d. jarðaberjum eða bláberjum, fer allt eftir smekk hvers og eins. Mæli með að þið prufið ykkur áfram – möguleikarnir eru endalausir. 

Njótið vel. 

Sítrónu bollakökur með sítrónukremi

 U.þ.b. 12 – 14 bollakökur

280 g hveiti
1 tsk lyftiduft
115 g sykur
2 egg
250 ml mjólk
85 g smjör (brætt smjör)
Rifinn börkur af 1 sítrónu

Hitið ofninn í 200°C.

 Sigtið hveiti og lyftiduft saman, tvisvar til þrisvar. 
Blandið sykrinum saman við. 




  Pískið egg léttilega í skál, blandið mjólkinni og smjörinu (passið að smjörið sé orðið kalt) rólega saman við.


  Setjið sítrónu börkinn saman við og blandið þessu vel saman. 
 Bætið hveitiblöndunni saman við í nokkrum pörtum og hrærið vel í.
 Svona lítur deigið út þegar að það er tilbúið.
 Skiptið deiginu jafnt niður í pappaform. 




 Inn í ofn við 200°C í 20 mínútur. 
 Kælið kökurnar vel áður en þið setjið á þær krem. 

Sítrónukrem

85 g smjör, við stofuhita
190 g flórsykur
1 msk mjólk
1 msk sítrónusafi
½ vanilla extract (eða vanilludropar)

Hrærið smjörið þar til það verður orðið mjög mjúkt. Sigtið flórsykur saman við og hrærið vel saman í 2 – 3 mín. Bætið mjólkinni, sítrónusafanum og vanillu extractinu við, hrærið mjög vel saman í nokkrar mín. Ég bætti matarlit út í kremið í lokin.


 Ég notaði ekki sprautupoka í þetta sinn til þess að setja kremið á heldur bara lítinn hníf og skeið.
 Það kom ansi skemmtilega út að mínu mati. 


 Sumarlegar og sætar bollakökur. 







Ljúffeng bollakaka. 

Ég mæli með að þið prufið þessa uppskrift. 

xxx

Eva Laufey Kjaran