Sunday, July 21, 2013

Oreo skyrkaka

 Ég er ferlega hrifin af osta-og skyrkökum. Þær eru svo fljótlegar og einfaldar, smakkast líka guðdómlega. Oreo kexið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég held að flestir séu sammála um að þessar kexkökur séu þær allra bestu, það smakkast allt betra ef það er Oreo í því. Ég hef smakkað margar tegundir af Oreo ostakökum og mér þykja þær allar góðar, ég var ekki búin að smakka Oreo í skyrkökum og ákvað því að prófa mig áfram í skyrkökugerðinni. Kakan tókst sérdeilis vel til, bauð upp á hana í eftirrétt eitt kvöldið og við vorum öll sammála um að kakan væri stórgóð. Skyrkökur henta sérstaklega vel sem eftirréttur að mínu mati, þær eru svo léttar og góðar. 

Hér kemur uppskriftin og ég vona að þið eigið eftir að njóta vel. 

Ljúffeng Oreo skyrkaka 
ég nota bökunarform sem er í miðlungsstærð (20 cm), kakan er fyrir 4 - 6 manns. Það er ekkert mál að tvöfalda þessa uppskrift. 

Botn 

320 g Oreo kexkökur
100 g smjör

1. Fóðrið formið að innan með filmuplasti, látið plastið ná upp á barmana. (það þarf ekki endilega að nota filmuplast en mér finnst oft betra að ná kökunni úr forminu með því að nota plastið.) Myljið kexið í matvinnusluvél. Blandið smjörinu saman við og þrýstið kexblöndunni á botn og upp með börmum á bökuformi. Kælið á meðan að þið útbúið fyllinguna.

Fylling

1 peli rjómi
1 stór dós vanillu skyr
3 tsk vanillusykur
1 msk flórsykur
5 Oreo kexkökur, muldar

1. Þeytið rjóman og leggið til hliðar. 2. Hrærið saman skyrinu, vanillusykrinum og flórsykrinum 3. Blandið rjómanum saman við skyrblönduna og hrærið vel í. 4. Myljið niður nokkrar Oreo kexkökur og bætið saman  í lokin. 5. Hellið blöndunni ofan í kökubotninn og kælið í lágmark 2- 3 klukkustundir. Ég læt stundum matarlím í kökuna því hún á það til að renna svolítið, það er bara smekksatriði. 

Ofan á 

100 g hvítt súkkulaði 
nokkrar Oreo kexkökur 

1. Bræðið hvítt súkkulaði og dreifið yfir kökuna, skerið nokkrar Oreo kökur í tvennt og skreytið kökuna að vild. Dreifið smá kökumylsnu yfir, þá verður kakan enn fallegri.  


Þessi kaka er af einföldustu gerð eins og þið sjáið á uppskriftinni hér fyrir ofan, það tekur enga stund að búa hana til og hún smakkast mjög vel. Ég er hrædd um að þessi kaka verði oft á boðstólnum hjá mér á næstunni. 

Ég lét ekki matarlím í kökuna að þessu sinni og eins og þið sjáið á myndinni þá rennur hún svolítið til, ég nota stundum matarlímsduft sem ég kaupi út í matarbúð. Það þarf ekki að nota mikið af því til þess að kakan haldi sér betur. 


Ég mæli tvímælalaust að þið prófið þessa stórgóðu uppskrift, ég vona að þið eigið eftir að njóta vel. Í dag er sunnudagur og því er tilvalið að skella í eina köku. 

Ég vona að þið hafið átt góða helgi og eigið ljúfan sunnudag framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

3 comments:

  1. Flott kaka og flott blogg! Ætla að prófa þessa! En hvernig notar þú matarlímsduft í kökunni? Bara hrærir þú matarlímsdufti saman við skyrið og rjómann? Og hvað notar þú mikið? Sirka teskeið? Og varst þú að nota pæform að þessu sinni? :)

    ReplyDelete
  2. Búin að prófa þessa og hún er frábær. Ég notaði tilbúinn oreokex botn frá Kosti og fyllingin passaði akkúrat í hann. Þarf ekkert matarlím, ég gerði kökuna kvöldið áður og hún var mjög flott (lak ekkert til) .
    Erla

    ReplyDelete
  3. Hvernig notaru matarlímið ef þú setur það í kökuna? :)

    ReplyDelete