Nú styttist í Verslunarmannahelgina og eflaust margir frekar spenntir, enda er mikið um að vera út um allt land. Ég ætla þess vegna að deila með ykkur í dag uppáhalds nammibitanum mínum sem ég geri gjarnan þegar ég ferðast. Dásamlegir Marsbitar sem bráðna gjörsamlega í munni, ég fæ ekki nóg af þessum litlu og ljúffengu bitum. Bitarnir eru af einföldustu gerð og það er þægilegt að taka þá með í fríið. Ég verð heima um helgina en ég gerði mér engu að síður gott súkkulaðinammi til þess að eiga með kaffinu, það er nú algjör nauðsyn.
Rice Krispies og súkkulaði er tvenna sem getur sjaldan klikkað og bragðast alltaf vel, ég mæli með að þið prófið þessa bita kæru vinir.
Dásamlegir Marsbitar
ein ofnskúffa eða 12 - 14 Marsbollakökur
150 g smjör
150 g súkkulaði t.s. suðusúkkulaði frá Nóa.
150 g Mars súkkulaðistykki
5 - 6 msk. síróp
6 bollar Rice Krispies
Aðferð:
Hitið smjör við vægan hita í potti, skerið súkkulaði í litla bita og bætið út í. Hrærið vel í á meðan og leyfið súkkulaðinu að bráðna í rólegheitum. Þegar súkkulaðið er bráðnað þá bætum við sírópinu og Rice Krispies út í blönduna og hrærum vel í. Hellið blöndunni á bökunarpappír í ofnskúffu eða skiptið jafnt niður í muffins form. Ég mæli með að þið sem ætlið að taka þessa bita með í ferðalagið skiptið deiginu niður í muffinsform, það er svolítil hætta á að bitarnir klístrist saman í útileiguboxinu .
Setjið bitana í kæli í lágmark 2 klukkustundir, gott að hafa þá yfir nótt. Skerið kökuna í litla bita ef þið hafið sett hana í ofnskúffu.
Njótið vel kæru vinir.
xxx
Eva Laufey Kjaran
No comments:
Post a Comment