Tuesday, January 21, 2014

Já nú sigrum við janúar og febrúar!

 Það eru tveir mánuðir á árinu sem að mínu mati líða svolítið hægt, þá er ég að tala um janúar og febrúar. Þeir geta verið gráir og pínu fúlir. En við getum auðvitað alltaf tekið málin í okkar hendur og verið dugleg við að hitta fólkið okkar, hreyfa okkur og borða góðan mat auðvitað. Að plana og hafa eitthvað til þess að hlakka til er svo skemmtilegt (finnst mér, ég er pínu plan-óð). Hér eru nokkur dæmi sem hægt er að gera til þess að hressa upp á þessa ágætu en gráu mánuði. 

Að sáldra smá súkkulaði út í morgunkaffið eða fá sér einn bita af dökkum súkkulaðibita með, það er eitthvað við elsku súkkulaðið sem hressir og kætir. 

 Veðrið er búið að vera ágætt hjá okkur í janúar og vonandi helst það svona fínt (þ.e.a.s ekki snjór og leiðindi, já ég kalla það leiðindi). Reimið á ykkur íþróttaskóna og farið út að labba eða hlaupa. Það er ótrúlegt hvað hreyfingin hefur góð áhrif á okkur. Allt verður mikið betra eftir góða útiveru. 
 Hér fyrir ofan eru nokkur ágæt hlaupalög. 


 Planið matarboð með vinum og fjölskyldu, mér finnst fátt skemmtilegra en að hitta fólkið mitt og borða með þeim góðan mat. Það er sérstaklega skemmtilegt að velja þema og fá alla til þess að taka þátt í matargerðinni, í bókinni minni Matargleði Evu er ég með tvö þemu af matarboðum. Sushi veisla og mexíkóskt matarboð. Farið saman í búðina, veljið hráefnin og farið heim að elda. Það er uppskrift að stórgóðu kvöldi.

 Skelltu þér á matreiðslunámskeið eða á bakstursnámskeið hjá Salt eldhúsi. Ef þig langar að læra að búa til makkarónur, ferskt pasta eða baka þitt eigið brauð þá er þetta eitthvað fyrir þig. 

Hádegis-og kvöldverðardeit með fólkinu ykkar. Það brýtur svo sannarlega upp daginn og er að mínu mati nauðsynlegt að gera allavega einu sinni í viku. Í hádeginu finnst mér dásamlegt að fara á Jómfrúnna eða á Snaps. Mjög skemmtilegir staðir og maturinn sérlega góður. 

  • Bíóferðir eru alltaf skemmtilegar, ég held að ég sé búin að fara oftar núna í bíó í janúar en ég gerði yfir allt árið í fyrra. Það eru svo góðar myndir í bíó þessa stundina. 
  •  Að baka köku á kvöldin og njóta með glasi af mjólk. Það er hversdagslúxus. 
  • Taka almennilega til, henda gömlu dóti eða gefa. Við getum verið svo dugleg að safna allskyns hlutum og fötum sem við notum ekki lengur. Það er ágætt að nota janúar og febrúar í tiltekt, gera heimilið ferskt og fínt fyrir vorið. 
Það er svo margt skemmtilegt sem við getum gert daglega með fólkinu okkar, við ráðum því alveg sjálf. Ég vona að þið eigið góða viku framundan kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment