Wednesday, January 15, 2014

Ljúffeng vetrarsúpa með kóríander, avókadó og steiktum tortillakökum.

Ég elska góðar og matarmiklar súpur sem ylja á köldum kvöldum. Fríða vinkona mín bauð okkur í vinahópnum upp á gómsæta súpu um daginn. Ég kolféll fyrir súpunni og prófaði að gera hana strax daginn eftir handa fjölskyldunni minni. Svo góð er hún að ég fæ ekki nóg.

Myndavélin var batteríslaus svo síminn bjargaði mér að þessu sinni, símamynd. 
Ljúffeng vetrarsúpa með kóríander, avókadó og steiktum tortillakökum.
Uppskrift fyrir 3 - 4 
  • 1 msk. olía
  • 1 rauðlaukur, smátt skorinn
  • 2 hvítlaukrif, pressuð
  • 1 1/2 rauð paprika
  • 5 - 6 gulrætur
  • 1 1/2 krukka hakkaðir tómatar, ég notaði tómata í krukku frá Sollu
  • 1 - 2 msk. tómatpúrra 
  • 1,2 - 1,5 l vatn + 2 grænmetis eða kjúklingateningar
  • 1 tsk. paprikukrydd
  • 1/2 tsk. þurrkuð basilíka
  • 1/2 tsk. þurrkað koríander (eða ferskt, það er betra)
  • smá chilikrydd, smekksatriði hvað þið notið mikið. Prófið ykkur áfram, kryddið er frekar sterkt.
!Fríða var með kjúkling í súpunni en ég sleppti honum. Súpan er mjög góð með kjúkling. Notið þá ca. 500 - 600 g af kjúklingakjöti. Skerið kjúklingakjötið í litla bita og steikið á pönnu í smá stund og bætið kjúklingnum síðan saman við súpuna. 

Aðferð:

Hitið olíu í potti við vægan hita, steikið laukinn og hvítlaukinn í smá stund. Hreinsið grænmetið og skerið í litla bita, bætið grænmetinu saman við og steikið í smá stund (1 - 2 mín). Bætið vatninu, hökkuðum tómötum og tómatpúrru saman við. Kryddið til með grænmetis-eða kjúklingakrafti. Því næst fara þau krydd sem ég tel upp hér að ofan, endilega prófið ykkur áfram með kryddin. Leyfið súpunni að malla í lágmark 30 mínútur. Mér finnst súpan alltaf betri ef hún fær að malla svolítið lengi. 

Meðlæti, það sem vð látum ofan á súpuna. 

  • 1 msk. olía
  • tortillakökur, skornar í litla bita 
  • sýrður rjómi 
  • avókadó, smátt skorið 
  • ferskur kóríander, smátt saxaður 
  • fetaostur
Hitið olíu við vægan hita á pönnu og steikið tortillakökurnar, skerið þær fyrst í litla bita. Það er dásamlegt að setja sýrðan rjóma, steiktar tortillakökur, avókadó, mulinn fetaost og ferskan kóríander yfir súpuna. Hver og einn getur sett saman sína súpu. Ég elska að hafa mikið í minni súpu. Það kom mér sérstaklega á óvart hvað það er gott að setja ferskt avókadó í súpur.


Einfalt, fljótlegt og dásamlega gott. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment