Tuesday, February 3, 2015

Ostaplatti og Focaccia.

Í Sunnudagsmogganum deildi ég uppskriftum úr matarboði sem ég hélt fyrir vinkonur mínar. Ef félagsskapurinn er góður er góður matur bara plús. Ítalskt þema var fyrir valinu þetta kvöld og við nutum þess að sitja, borða og blaðra langt fram á kvöld. Alveg eins og það á að vera.

Ég bauð upp á ostaplatta og nýbakaða Focacciu í forrétt, ótrúlega einfalt og mjög góð byrjun á matarboðinu. Ég vil gjarnan bera fram góðan mat en á sama tíma vil ég hafa þetta frekar þægilegt, ég er nefnilega oft á tíðum í stressi rétt áður en gestirnir koma og það er ferlega leiðinlegt þegar eldhúsið er á hvolfi þegar gestirnir hringja dyrabjöllunni. Ég þoli illa að vera ekki með allt tilbúið á réttum tíma. Ég tók það fram í textanum sem fylgdi Sunnudagsmogganum að besta reglan sem ég hef tamið mér undanfarið er að leggja alltaf á borð kvöldinu áður, þá losna ég við allt stress og það virðist allt svo áreynslulaust þegar gesti ber að garði. Þó maður hafi verið sveittur fimm mínútur áður en þau komu þá er alltaf búið að dekka upp. Það er besta húsfreyjuráð! Ég tók þetta upp eftir að ég sá að tengdamóðir mín er gjörn á að gera þetta með góðum árangri.

Ostaplatti og Focaccia


Fallegur ostaplatti er ávísun á góða samverstund. Það er fátt notalegra en að spjalla við skemmtilegt fólk og narta í ljúffenga osta á meðan. Ég ákvað að bjóða upp á ostabakka í forrétt og það kom mjög vel út og það setti tóninn fyrir þessu góða kvöldi. Ég fór í Sælkerabúðina á Bitruhálsi og fékk aðstoð við að velja osta sem passa í forrétt, ég var eins og barn í leikfangabúð í sælkeraversluninni en úrvalið er frábært. Ég mæli með að þið prófið að setja saman ostaplatta fyrir næsta matarboð. Það kemur skemmtilega á óvart!

Ostabakki
  • 3 ólíkir ostar að eigin vali, ég mæli með Prima Donnu, Brie og Saint Albray.
  • Góðar ólífur
  • Piccante, Sterkkrydduð Salami
  • Þykkvabæjar Salame, Hrossa Salami
  • Góð sulta
Raðið á bakka eða fat og berið fram með góðu brauði t.d. Focaccia



Focaccia með hvítlauk og rósmarín

  • 900 g. Hveiti
  • 2 msk hunang
  • ½ tsk. Salt
  • 100 g. Smjör
  • ½ L mjólk
  • 1 pakki þurrger
  • 3 – 4 msk. Ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif, smátt skorin
  • 2 msk. Rósmarín, smátt saxað


Aðferð:
  1. Hitið mjólkina í potti við vægan hita (mjólkin á að vera volg).
  2. Bætið þurrgeri út í mjólkina og látið standa í 4 – 5 mínútur.
  3. Bræðið smjör við vægan hita.
  4. Blandið öllu saman og hnoðið deigið vel eða þar til deigið er slétt og sprungulaust. Þá er deigið látið hefast undir viskastykki þar til það hefur tvöfaldast eða í um það bil 50 – 60 mínútur.
  5. Því næst er ofnskúffa smurð með ólífuolíu, deigið sett í skúffuna og því þrýst jafnt út í alla kanta. Viskastykki lagt yfir og látið hefast í um það bil 30 mínútur til viðbótar.
  6. Þegar brauðið hefur lyft sér er fingri stungið í brauðið og myndaðar holur á nokkrum stöðum. Því næst stingið þið hvítlauksrifum í deigið og sáldrið bæði ólífuolíu og söxuðu rósmarín yfir deigið. Það er líka mjög gott að setja gróft sjávarsalt yfir í lokin.
  7. Bakið brauðið við 200 °C í 15-20 mínútur eða þar til brauðið er orðið gullinbrúnt. Berið fram með góðri ólífuolíu. 











Hér eru þær, dásamlegu vinkonur mínar. Guðrún Sóley. Gunnhildur, Fríða og Elín Edda. Ég mæli með að þið bjóðið fjölskyldu og vinum í mat sem fyrst, það er ávísun á gæðastund. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment