Wednesday, May 27, 2015

Einfaldasti pastarétturinn



Orðið Arrabbiata þýðir “ævareiður” en þá er verið að vísa í hve sterkur rétturinn er.  Ég vann á litlu veitingahúsi í Oxford fyrir nokkrum árum og þessi pastaréttur var einn sá vinsælasti. Það var ekki aftur snúið þegar ég var búin að smakka hann, enda er hann mjög bragðgóður og sérstaklega einfaldur.

Að mínu mati er ekki mikið úrval af pastaréttum á veitingahúsum hér á Íslandi, mér finnst flestir pastaréttir bornir fram í beikon-rjómasósu sem er að sjálfsögðu gott og blessað en það er eitthvað við ítalskar tómatsósur sem heillar mig meira.  

Ég hvet ykkur til þess að prófa þennan rétt, það tekur enga stund að elda hann og ég er handviss um að hann eigi eftir að slá í gegn á heimilinu.  Þó nafnið vísi í að þetta sé MJÖG sterkur réttur þá hafið þið hann eins og þið viljið, ég myndi segja að eftirfarandi uppskrift væri miðlungs sterk. Ég vona að þið njótið vel.


Pasta Arrabbiata

Undirbúningstími 10 mínútur
Eldunartími 20 mínútur 
Fyrir 2 - 3 


Hráefni:

250  g Pasta Casareccia
ólífuolía
1 rauðlaukur
2 gulrætur
2 hvítlauksrif
1 rautt chili, fræhreinsað
salt og nýmalaður pipar
1 krukka pastasósa með basilíku
½ kjúklingateningur

parmesan ostur
fersk basilíka

Aðferð:

  1. Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
  2. Hitið olíu í víðum potti, skerið grænmetið fremur smátt og steikið í smá stund eða þar til það fer að mýkjast.
  3. Hellið tómatsósunni út í og bætið kjúklingatening saman við.
  4. Kryddið til með salti og pipar.
  5. Leyfið sósunni að malla við vægan hita þar til grænmetið er eldað í gegn.
  6. Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af (geymið þó 2 dl sem þið bætið í sósuna) og blandið saman við sósuna. Leyfið pastaréttinum að malla í svolitla stund og berið síðan fram með parmesan osti og ferskum basilíkulaufum.


Það er tilvalið að nota þessa pastategund í þennan rétt, mjög skemmtileg áferð. 




Einfalt og gott hvítlauksbrauð 


Það er klassískt að bjóða upp á gott hvítlauksbrauð með pastaréttum og hér kemur uppskrift sem er einföld og góð.

½ baguette brauð, skorið í tvennt og í fjóra bita
½ hvítlauksostur
3 msk sýrður rjómi
salt og pipar
ólífuolía

Aðferð:

  1. Skerið brauðið í tvennt og síðan í fjóra bita.
  2. Rífið niður hvítlauksost og blandið saman við sýrða rjómann, kryddið til með salti og pipar.
  3. Leggið í eldfast mót og sáldrið smá ólífuolíu yfir brauðsneiðarnar.
  4. Bakið við 200°C í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er gullinbrúnt.


Buon Appetito!
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 






Sunday, May 24, 2015

Babyshower og vanillukaka með banana- og karamellufyllingu.


Babyshower er veisla sem haldin er til heiðurs tilvonandi mæðrum. Líkt og nafnið gefur til kynna þá er hugmyndin með slíkri veislu að móðirin tilvonandi sé böðuð í gjöfum. Amerísk hefð að sjálfsögðu en mikil ósköp er gaman að halda svona boð, þetta er auðvitað bara afsökun fyrir kökuáti með vinkonum. Það hefur verið hefð í okkar vinahópi að halda slíkar veislur og ég verð að viðurkenna  að mér finnst fátt skemmtilegra en að plana slík boð. Í gær var svo komið að því að halda boð fyrir Fríðu vinkonu mína sem á von á lítilli dömu í næsta mánuði. Krúttlegheitin brutust út og það var nostrað við hvern bita, það ranghvolfa sjálfsagt margir augunum fyrir umstanginu en okkur þykir þetta svo skemmtilegt og allt sem gerir lífið skemmtilegra er af hinu góða. 

Eins og ég var búin að segja þá er sterk hefð fyrir veislum af þessu tagi í Bandaríkjunum og við hér á Íslandi mættum taka Kanann til fyrirmyndar. Einlæg, falleg og öðruvísi veisla sem gleður. 

Hér koma myndir af veislunni og uppskrift að vanilluköku með banana- og karamellufyllingu. 


Litlar berjaostakökur með hvítu súkkulaði, ég mun birta þessa uppskrift mjög fljótlega. 


Þessir súkkulaðibitar voru ómótstæðilegir, ég þarf að fá uppskriftina hjá Öglu vinkonu og birta hana hér. Brownies með jarðarberjafyllingu og súkkulaðimús. 




Mímósubarinn klár og barnakampavínið fyrir tilvonandi mömmurnar í kælingu


Nýtt uppáhald, litlar pönnukökur með bláberjasírópi og stökku beikoni 



Elísa Guðrún, Heiður, Silja Sif og Gyða


Fríða, Svava Mjöll og Bryndís 


Íris Elín dásamlega litla vinkona mín 


 Agla, Eva og Þórdís Kolbrún 



 Emilía og Sigríður Margrét 




Marengskossar með sítrónufyllingu og ferskum berjum. 



 Vanillukaka með banana-og karamellufyllingu


5 eggjahvítur (notið rauðurnar t.d. í lemon curd)
1 Brúnegg
240 ml mjólk
2 ½ vanilla extract (góð vanilla)
350 Kornax hveiti
400 g sykur
3 tsk lyftiduft
salt á hnífsoddi
170 g smjör, við stofuhita

Aðferð:

  • Hitið ofninn í 180°C.
  • Hrærið eggjum, mjólk og vanillu saman í skál, leggið til hliðar.
  • Sigtið saman hveiti og lyftiduft. (Með því að sigta mjölið saman verður það eins fínt og mögulegt er og kakan á auðveldara með að lyfta sér)
  • Blandið öllum þurrefnum saman og bætið smjörinu við í nokkrum pörtum, það tekur um það bil fjórar mínútur.
  • Bætið síðan eggjablöndunni saman við í þremur skömmtum, það er ágætis regla að stoppa af og til og skafa meðfram hliðum á skálinni svo allt blandist örugglega vel saman.
  • Smyrjið tvö hringlaga form og hellið deiginu í formin. Bakið við 25 – 30 mínútur við 180°C.
  • Kælið mjög vel áður en þið smyrjið kreminu á kökuna.


Vanillusmjörkrem og ljúffeng karamellufylling

250 g smjör
500 g flórsykur
4 msk rjómi (eða mjólk)
2 tsk vanilla extract
smá vanillusykur
matarlitur

Aðferð:

  1.  Hrærið saman smjör og flórsykri í 3 mínútur, bætið rjómanum og vanillu saman við í tveimur skömmtum.
  2. Kremið verður léttara og betra ef það fær að blandast vel saman, ég hræri það í um það bil fimm mínútur. Að þessu sinni notaði ég bleikan matarlit og bætti honum saman við í lokin. Wilton gel matarlitir eru í mínu eftirlæti.
  3. Ég skipti kreminu í tvennt, tók smá hluta sem ég ætlaði að nota sem fyllingu og sleppti að nota matarlit í þann hluta.


Karamellu- og bananafylling

6 stórar msk smjörkrem, ólitað
2 bananar
2 msk góð karamellusósa t.d. Dulce de leche

Aðferð:
  1. Blandið öllu saman í hrærivél í smá stund og smyrjið á milli kökubotnanna.
  2. Þekjið kökuna með smjörkremi og skreytið að vild.
  3. Best finnst mér að geyma þessa köku í kæli í svolitla stund áður en ég ber hana fram.




Þetta var frábær dagur með skemmtilegum vinkonum og hér má sjá fallegu vinkonu mína hana Fríðu sem verður mamma eftir nokkrar vikur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 




Friday, May 22, 2015

Frönsk lauksúpa


Frönsk lauksúpa 

Galdurinn við góða lauksúpu er að leyfa lauknum að krauma í smjörinu í dágóðan tíma. Hér er uppskrift að bragðmikilli lauksúpu sem Eva Laufey eldaði í þætti sínum, Matargleði. 


400 g laukur
70 g smjör
1 msk hveiti
1 l kjúklingasoð
3 dl hvítvín
4 tímían greinar
3 lárviðarlauf
steinselja, magn eftir smekk
salt og nýmalaður pipar
baguette 
rifinn ostur 

Aðferð

  • Afhýðið lauk og skerið í þunnar sneiðar.
  • Steikið laukinn upp úr smjörinu, því lengur sem þið steikið laukinn því betri verður súpan. Hann á þó alls ekki að brenna heldur verða glær og gullinbrúnn.
  • Stráið hveitinu yfir laukinn og hrærið í.
  • Hellið soðinu og hvítvíninu saman við og látið sjóða saman.
  • Bætið kryddjurtum út í og leyfið henni að malla í 30 mínútur - 50 mínútur.
  • Hellið súpunni í skálar sem þola að fara inn í ofn, setjið eina brauðsneið ofan í hverja skál og stráið osti yfir. Bakið í ofni í nokkrar mínútur eða þar til osturinn er bakaður.


Berið súpuna strax fram og njótið

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir