Orðið Arrabbiata þýðir “ævareiður” en þá er verið að vísa í hve sterkur
rétturinn er. Ég vann á litlu
veitingahúsi í Oxford fyrir nokkrum árum og þessi pastaréttur var einn sá
vinsælasti. Það var ekki aftur snúið þegar ég var búin að smakka hann, enda er
hann mjög bragðgóður og sérstaklega einfaldur.
Að mínu mati er ekki mikið úrval af pastaréttum á veitingahúsum hér á Íslandi, mér finnst flestir pastaréttir bornir fram í beikon-rjómasósu sem er að sjálfsögðu gott og blessað en það er eitthvað við ítalskar tómatsósur sem heillar mig meira.
Ég hvet ykkur til þess að prófa þennan rétt, það tekur enga stund að elda hann og ég er handviss um að hann eigi eftir að slá í gegn á heimilinu. Þó nafnið vísi í að þetta sé MJÖG sterkur réttur þá hafið þið hann eins og þið viljið, ég myndi segja að eftirfarandi uppskrift væri miðlungs sterk. Ég vona að þið njótið vel.
Pasta Arrabbiata
Undirbúningstími 10 mínútur
Eldunartími 20 mínútur
Fyrir 2 - 3
Hráefni:
250 g Pasta Casareccia
ólífuolía
1 rauðlaukur
2 gulrætur
2 hvítlauksrif
1 rautt chili, fræhreinsað
salt og nýmalaður pipar
1 krukka pastasósa með basilíku
½ kjúklingateningur
parmesan ostur
fersk basilíka
Aðferð:
- Sjóðið pasta samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.
- Hitið olíu í víðum potti, skerið grænmetið fremur smátt og steikið í smá stund eða þar til það fer að mýkjast.
- Hellið tómatsósunni út í og bætið kjúklingatening saman við.
- Kryddið til með salti og pipar.
- Leyfið sósunni að malla við vægan hita þar til grænmetið er eldað í gegn.
- Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt af (geymið þó 2 dl sem þið bætið í sósuna) og blandið saman við sósuna. Leyfið pastaréttinum að malla í svolitla stund og berið síðan fram með parmesan osti og ferskum basilíkulaufum.
Það er tilvalið að nota þessa pastategund í þennan rétt, mjög skemmtileg áferð.
Einfalt og gott hvítlauksbrauð
Það er klassískt að bjóða upp á gott hvítlauksbrauð með pastaréttum og hér
kemur uppskrift sem er einföld og góð.
½ baguette brauð, skorið í tvennt og í fjóra bita
½ hvítlauksostur
3 msk sýrður rjómi
salt og pipar
ólífuolía
Aðferð:
- Skerið brauðið í tvennt og síðan í fjóra bita.
- Rífið niður hvítlauksost og blandið saman við sýrða rjómann, kryddið til með salti og pipar.
- Leggið í eldfast mót og sáldrið smá ólífuolíu yfir brauðsneiðarnar.
- Bakið við 200°C í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er gullinbrúnt.
Buon Appetito!
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
No comments:
Post a Comment