Wednesday, July 29, 2015

Ómótstæðilegur skyr eftirréttur með súkkulaðiköku og hindberjum


Sumarið hefur flogið áfram og það er óhætt að segja að það hafi verið dásamlegt, ég hef notið þess að vera í sumarfríi með Hadda og Ingibjörgu Rósu. Að vísu gátum við Haddi ekki tekið mikið frí saman, þurfum auðvitað að púsla þessu eins og annað fjölskyldufólk. Engu að síður höfum við náð að bralla margt skemmtilegt saman og ég mætti endurnærð til vinnu í morgun full tilhlökkunar varðandi haustið. Ég bakaði mjög mikið í fríinu og fyrr í sumar útbjó ég þennan ómótstæðilega eftirrétt sem þið ættuð að prófa. Skyrkökur og súkkulaðikökur eru gómsætar, þið getið þess vegna ímyndað ykkur þegar þessar tvær koma saman... brjálæðislega gott og einfalt. 


Eftirréttur með súkkulaðiköku og berjaskyri. 


100 smjör, brætt
2 Brúnegg
2,5 dl sykur
1,5 dl Kornax hveiti
2 tsk vanillusykur
3 msk gott kakó
½ tsk salt

Aðferð: Hitið ofninn í 175°C (blástur). Bræðið smjör í potti við vægan hita. Þeytið saman sykur og egg í smá stund eða þar til blandan verður létt og ljós. Blandið hinum hráefnunum saman við og hrærið í smá stund eða þar til deigið verður silkimjúkt. Smyrjið bökunarform (mér finnst best að nota smelluform en þá er mikið þægilegra að ná kökunni úr forminu).  Hellið deiginu í formið og bakið við 175°C í 20 mínútur. Kælið kökuna og skerið í litla munnbita.

*Formið sem ég nota er 20cm að stærð.
*Mér finnst best að baka þennan botn við blástur en ef þið notið yfir-og undirhita þá þurfið þið að hafa hærri hita t.d. 200°C.

Skyrkakan
  • 400 g hindberjaskyr t.d. frá KEA (það er líka hægt að nota blandað berjaskyr)
  • 200 ml rjómi, þeyttur
  • 3 msk flórsykur
  • 1 tsk vanilla extract eða sykur
  • 6 – 8 fersk hindber
Aðferð: 
  1.  Hrærið skyrinu, flórsykrinum, vanillu og ferskum hindberjum saman í skál. Þegar það hefur blandast vel saman þá bætið þið þeytta rjómanum saman við.
  2.  Setjið eftirréttinn gjarnan saman í háu glasi eða í fallegri skál. Rífið niður hvítt súkkulaði í lokin og skreytið með ferskum hindberjum.
Algjört augnakonfekt og ljúffengur á bragðið. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

No comments:

Post a Comment