Thursday, July 16, 2015

Villtur lax með blómkálsmauki og smjöri


Eftir ljúft frí á Spáni hlakkaði ég til að fá mánudagsfiskinn minn, auðvitað er gott og gaman að borða allt sem hugurinn girnist þegar maður er í fríi en mig var farin að lengja eftir fisk. Það gladdi mig mjög mikið er ég sá að í fiskborðinu í Hagkaup var þessi glæsilegi villti lax, ég týndi til einfalt meðlæti. Blómkál, kirsuberjatómata, ferskan aspas og púrrulauk. Ef hráefnið er gott þá þarf ekki að flækja hlutina. Ég dreif mig heim, í bílnum á leiðinni var ég búin að ákveða hvernig ég ætlaði að matreiða fiskinn en þetta átti að vera eins einfalt og kostur væri, enda klukkan að ganga sjö og allir svangir. Pönnusteiktur lax með blómkálsmauki, ofnbökuðum aspas, tómötum og púrrlaukssmjörsósu. Þetta var einn besti fiskur sem ég hef smakkað. Það er ekki hægt að líkja eldislaxi og þeim villta samana, sá villti er einfaldlega algjört lostæti. Nú er komið að ykkur. 


Villtur lax með blómkálsmauki og grænmeti. 

  • Stórt blómkálshöfuð 
  • grænmetisteningur 
  • 500 g villtur lax
  • ólífuolía 
  • smjör 
  • ferskur aspas 
  • kirsuberjatómatar 
  • salt og nýmalaður pipar
  • 100 - 150 g smjör 
  • 1/2 púrrulaukur
Aðferð:

  1. Sjóðið blómkálshöfuðið í söltu vatni og bætið grænmetistening út í pottinn. 
  2. Beinhreinsið fiskinn ef það er ekki búið að því, skerið flakið í jafn stóra bita og hitið olíu á pönnu. Steikið fiskinn í 2 mínútur á hvorri hlið, kryddið til með salti og pipar. Mér finnst mjög gott að bæta smá smjöri út á pönnuna rétt í lokin. 
  3. Þegar blómkálshöfuðið er soðið, takið það upp úr pottinum með fiskispaða t.d. og setjið ferskan aspas út í sjóðandi vatnið í þrjár mínútur. Takið aspasinn upp úr pottinum og leggið í eldfast mót. Bætið kirsuberjatómötum og fiskinum ofan á aspasinn. Hellið smávegis af olíu yfir og kryddið enn og aftur með salti og pipar. 
  4. Bakið í ofni við 180°C í 6 - 8 mínútur. 
  5. Á meðan fiskurinn er í ofninum skerið þið niður púrrulauk og sjóðið við vægan hita í smjörinu, notið um það bil 100 - 150 grömm af smjöri. 
  6. Maukið blómkálið með töfrasprota eða í matvinnsluvél, bætið smjöri saman við og kryddið til með salti og pipar. Ef blómkálsmaukið er of þykkt þá setjið þið smávegis af vatninu sem var í pottinum. 
  7. Þegar fiskurinn er klár berið þið allt saman strax fram og njótið vel. 
Skyndimatur eins og hann gerist bestur! 




Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefnið sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


No comments:

Post a Comment