Í þætti gærkvöldsins eldaði ég meðal annars þennan guðdómlega rétt sem kallast 'Beef bourguignon'. Þegar við Haddi fórum til Parísar í haust smakkaði ég réttinn á litlu sætu veitingahúsi í borginni og ég kolféll fyrir honum. Hægeldað nautakjöt í rauðvínssósu og fullkomin kartöflumús, ég fæ vatn í munninn við það eitt að skrifa niður uppskriftina fyrir ykkur. Nautakjötið verður svo bragðmikið og safaríkt að það er algjör óþarfi að tyggja það, svo mjúkt er það. Þetta er hinn fullkomni vetrarmatur sem ég mæli innilega með að þið prófið. Ég lofa ykkur því að þið eigið eftir að elda hann aftur og aftur.
Beef Bourguignon
- 1 msk smjör
- 1 msk ólífuolía
- 600 g nautakjöt, skorið í litla bita
- salt og pipar
- skallottulaukar, má líka nota venjulegan lauk en þá er notaður 1 stór laukur
- 1 1/2 sellerí stilkur
- 2 gulrætur
- 4 sveppir
- 500 ml - 600 ml nautakjötssoð (vatn + 2 teningar)
- 1 glas gott rauðvín
- 3 hvítlauksrif
- 3 lárviðarlauf
- 5 greinar tímían
- 3 greinar rósmarín
- handfylli fersk steinselja
Aðferð:
- Hitið olíu og smjör í potti og steikið nautakjötið, kryddið til með salti og pipar. Skerið niður beikon og bætið út í pottinn, steikið í smá stund.
- Skerið sellerí, gulrætur og sveppi í litla bita og setjið út í pottinn, rífið niður hvítlauk og hrærið vel í pottinum.
- Saxið niður steinselju og sáldrið yfir, setjið tímían greinar og rósmarín greinar í pottinn. Hellið soðinu og rauðvíninu saman við, leyfið réttinum að malla í 3 - 4 klukkustundir við vægan hita. Berið fram með sellerí-og kartöflumús.
Sellerí - og kartöflumús
- 4 stórar bökunarkartöflur
- 1/2 sellerírót
- salt og pipar
- rjómi
- smjör
Aðferð: Sjóðið
kartöflur og sellerírót í 35 - 40 mínútur, hellið vatninu frá og stappið saman.
Kryddið til með salti, pipar og bætið rjóma og smjöri saman við eftir smekk.
Haha, stundum er smá action í tökum þegar réttirnir eru farnir að sjóða of mikið ;)
Missið ekki af Matargleðinni öll fimmtudagskvöld klukkan 19:25 á Stöð 2.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni sem eru notuð í þessar uppskriftir fást í verslunum Hagkaups.
Ég finn hvergi hvað þú notar mikið af beikon?
ReplyDeleteHversu mikið beikon?
ReplyDeletePrófaði þennan um daginn og hann er sjúkur! Ekta comfort food, fyllir húsið af góðri matarlykt og bráðnar í munni :)Takk fyrir uppskriftina!
ReplyDelete