Thursday, January 21, 2016

Hollara bananabrauð


Í gær bakaði ég þetta gómsæta bananabrauð sem ég verð að deila með ykkur, ég skipti út hvíta hveitinu og notaði heilhveiti. Þetta var meira brauð, mér finnst bananabrauð oft svo sæt en þetta er brauðlegra. Það tekur enga stund að skella í þessa uppskrift og þið þurfið eingöngu örfá hráefni sem er alltaf kostur. Að vísu var brauðið aðeins dekkra hjá mér, ég var með það of lengi í ofninum en þannig var að Ingibjörg Rósa mín er búin að vera lasin og það tók aðeins lengri tíma að svæfa hana í lúrnum í gærdag og það hvarflaði ekki að mér að rjúka niður og taka brauðið út þegar sú litla var alveg sofna, ég náði þó að bjarga brauðinu áður en það brann haha :) 

Njótið vel. 

 Bananabrauð 


  • 2 egg
  • 2 þroskaðir bananar
  • 60 g smjör
  • 1 dl hlynsíróp
  • 3 1/5 dl Kornax Heilhveiti
  • 1 tsk vanillu extract (eða vanillusykur)
  • 1 dl mjólk 
  • 2 tsk lyftiduft 
Aðferð: 
  1. Hitið ofninn í 180°C (blástur) Þeytið saman egg og hlynsíróp þar til blandan verður létt og ljós. 
  2. Bræðið smjör við vægan hita og leggið til hliðar. 
  3. Blandið hveiti og lyftidufti saman og blandið við eggjablönduna. 
  4. Merjið banana og bætið út í blönduna ásamt mjólkinni og smjörinu. 
  5. Smyrjið form og hellið deiginu í formið, ég sáldraði smávegis af haframjöli yfir og skar niður 1/2 banana og lagði bita ofan á deigið. 
  6. Bakið brauðið við 180°C í 45 - 50 mínútur.







Kaffi, nýbakað bananabrauð og vinna. Gerist nú ekki huggulegra:) 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefnið sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


No comments:

Post a Comment