Friday, May 27, 2016

Brúðarkjóll og makkarónur


Nú styttist heldur betur í stóra daginn en eftir tæpa tvo mánuði ætlum við Haddi að gifta okkur eða þann 23.júlí. Ég er orðin hrikalega spennt og það var svolítið gaman að taka þátt í brúðarmyndatöku fyrir brúðkaupsblað Morgunblaðsins um daginn, þið getið skoðað viðtalið hér.  

Undirbúningurinn gengur vel en ég er svo róleg yfir þessu, mun rólegri en ég bjóst við. Það fyrsta sem við gerðum eftir að dagurinn var ákveðinn var að bóka kirkju og sal, svo höfum við rólegheitum tekið ákvarðanir varðandi athöfn og veislu. Gestalistinn er loksins klár en það var aðal hausverkurinn okkar, auðvitað vildum við bjóða öllum heiminum en salurinn leyfir það víst ekki. Nú höfum við hins vegar sagt skilið við listann og ég er búin lofa sjálfri mér því að líta ekki á hann aftur. (vonandi næ ég því haha). Og nú tala ég ekki meira um hann. 


En ég skal nú segja ykkur frá kjólnum mínum sem ég er svo ótrúlega ánægð með. Ég var með ákveðnar hugmyndir um kjól og búin að skoða trilljón kjóla en fann ekki þann sem mig langaði í. þess vegna ákvað ég að skella mér í brúðarkjólamátun hjá Brúðarkjólaleigu Katrínar. Ég mátaði marga mjög fallega kjóla og úrvalið kom mér á óvart, það var rosalega gott og mikið til af fallegum kjólum. Þegar ég mátaði minn kjól þá var ekki aftur snúið, hann var algjörlega fullkominn og ég gat ekki hætt að hugsa um hann. Ég fór síðan aftur með vinkonum mínum að máta og þá var endanlega tekin ákvörðun. Ég er rosalega fegin að hafa keypt kjólinn hér heima og býður Brúðarkjólaleiga Katrínar upp á úrvals þjónustu og mér finnst mikið öryggi að geta farið til þeirra ef eitthvað þarf að laga eða bæta. Mæli 100% með því að fara í brúðarkjólamátun hjá þeim. 


Ómótstæðilegar makkarónur

Makkarónur eru fullkomnar í brúðkaup, þær eru bæði svo ótrúlega góðar og fallegar. Tilvalið að bera þær með fordrykknum. Kampavín og makkarónur, það segir enginn nei við því. 

Hráefni
  • 3 Eggjahvítur
  • 210 g flórsykur
  • 125 g möndumjöl
  • 30 g sykur
  • Dálítill matarlitur
Aðferð:
  1. Sigtið saman flórsykur og möndlumjöl.
  2. Stífþeytið eggjahvíturnar, bætið sykrinum smám saman við. Ef þið ætlið að lita kökurnar þá bætið þið matarlitnum saman við á þessu stigi. Setjið meira en minna af matarlitnum þar sem liturinn dofnar verulega við baksturinn. 
  3. Bætið þurrefnum saman við eggjahvíturnar í þremur skömmtum, hrærið varlega saman með sleikju.
  4. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið á pappírsklædda bökunarplötu með jöfnu millibilli. Gott er að miða við að makkarónurnar séu á stærð við tíkall.
  5. Sláið plötunni nokkrum sinnum í borðið svo kökurnar verði sléttar og fínar. 
  6. Látið kökurnar standa á plötunni í 25 - 30 mínútur. 
  7. Bakið við 150 ° C í  10 - 12 mínútur. Kælið mjög vel áður en þið losið þær af plötunni og sprautið kremi á þær. 
Ég elska að útbúa venjulegt smjörkrem sem ég bragðbæti með t.d. saltkaramellu eða hindberjamauki eins og ég gerði við þessar makkarónur á myndinni. Uppskrift að smjörkremi er hér og þið getið svo prófað ykkur útfærslur. Það fer allt eftir smekk hvers og eins. 

Þetta voru brúðkaupspælingar dagsins, ég mun að öllum líkindum deila ferlinu með ykkur smám saman og eins ef þið lumið á góðum ráðum varðandi brúðkaup þá eru þau að sjálfsögðu vel þegin. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups. 

2 comments:

  1. Ingibjörg G. KjartansdóttirMay 27, 2016 at 7:32 AM

    Sæl Eva og takk fyrir frábærar uppskriftir og blogg ;) mig langar að vita hvað makkarónukökurnar geymast lengi? og hvernig er best að geyma þær? Mig langar að gera svona fyrir útskrift dóttur minnar sem verður í júní. kveðja, Ingibjörg

    ReplyDelete
  2. Sæl Eva Laufey. Takk fyrir skemmtilegu og mjög gagnlegu síðuna þína. Mig langar svo að vita hvar þú keyptir fjólubláa litinn fyrir makkarónukökurnar. Kvðja, Svala

    ReplyDelete