Thursday, March 28, 2013

Gular og gómsætar makrónur.

 Sólin skín hér í Noregi og vorið er svo sannarlega komið. Ég ákvað í morgun að baka franskar makrónur, auðvitað áttu þær að vera gular að þessu sinni. Gulur er uppáhalds liturinn minn svo ég er sérlega ánægð með páskana, þá fær guli og fallegi liturinn að njóta sín. Litlu prinsunum mínum fannst kökurnar sérstaklega spennandi og nú er skálin tóm, þá þurfum við bara að baka fleiri og ekki finnst mér það leiðinlegt. 

 Þið finnið mjög einfalda uppskrift að makrónum hér

Ég gerði sítrónusmjörkrem með hvítu súkkulaði, ég get sagt ykkur það að þetta krem er eitt það besta sem ég hef smakkað. Mæli svo sannarlega með þessu krem. 

Sítrónusmjörkrem. 

75 g smjör, við stofuhita 
150 g flórsykur
70 g hvítt súkkulaði
2  msk sítrónusafi
2 tsk rifinn sítrónubörkur

Aðferð:

Hrærið saman smjör og sykur þar til smjörblandan verður létt og ljós, bætið sítrónusafa og börkinum saman við. Hrærið vel í 2 - 3 mínútur. Hitið súkkulaði yfir vatnsbaði og bætið saman við smjörblönduna. Blandið þessu vel saman  og setjið síðan kremið í sprautupoka og inn í kæli í 10 - 15 mínútur. 

 Það er ekkert páskalegra en gulir og fallegir túlípanar.


Ég vona að þið hafið það sem allra best yfir páskana. Mæli auðvitað með að þið setjið upp spari svuntuna og hefjið bakstur, það bætir og kætir. 

Páskakveðja til ykkar. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

No comments:

Post a Comment