Tuesday, March 12, 2013

Japanskt kjúklingasalat


Æ það er svo gott þegar veðrið er svona fínt, ég er komin í vorfíling og ég vona svo sannarlega að þetta veður haldist. Maður veit nú aldrei, fyrir viku síðan var veðrið upp á sitt versta en í dag skín sólin og það er frekar ljúft veður. Ég fylgi veðrinu svolítið, það skiptir máli hvernig veður er úti þegar ég er að ákveða hvað ég eigi að elda. Þegar gott er veður þá kýs ég eitthvað einfalt, fljótlegt og fremur létt. Í gær eldaði ég japanskt kjúklingasalat og mikið sem það er nú gott. 
Hér kemur uppskriftin, njótið vel. 

Japanskt kjúklingasalat fyrir þrjá til fjóra. 

3 kjúklingabringur
sweet chili sósa
2 msk. sesamfræ
salatpoki (blandað salat, ég notaði spínat og klettasalat að þessu sinni)
1 mangó 
1/2 agúrka
kirsuberjatómatar, magn eftir smekk
1 rauðlaukur
balsamikedik
fetaostur (hálf krukka)
1 poki núðlur (instant súpunúðlur án krydds) 
salt og pipar 

1. Hitið 1  - 2 msk af olíu við vægan hita hita, skerið kjúklingabringurnar í ræmur og snöggsteikið í olíunni. Kryddið til með salti og pipar. Hellið sweet chili sósunni yfir (ca. 5 msk) og þetta látið malla í smástund.  
2. Skolið allt grænmetið mjög vel. Skerið grænmetið í litla bita og blandið því saman við salatið. Skvettið smávegis af balsamikediki yfir og setjið fetaostinn saman við, blandið þessu vel saman. 
3. Ég rista núðlurnar og sesamfræin á þurri pönnu. Brýt núðlurnar í smáa bita og rista þær fyrst því þær taka lengstan tíma og síðan fræin. (núðlurnar eiga að vera stökkar)
4. Raðið öllu saman í fallegt mót. Fyrst fer salatið, svo fer kjúklingurinn og núðlurnar ofan á kjúklinginn. Sáldrið fræum og ef til vil smá auka fetaosti yfir. Það er algjört smekksatriði en á þessum tímapunkti myndi ég smakka salatið og athuga hvort þið viljið setja meiri sweet chili sósu, þá er gott að dreifa svolítið af sósunni á salatið. Sósan er góð og er afskaplega góð með þessu salati. 

Berið þetta salat gjarnan fram með hvítlauksbrauði og sýrðum rjóma. 
Ótrúlega einfalt, fljótlegt og bragðmikið salat. 

Ég mæli með að þið prufið þessa uppskrift í kvöld kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

1 comment: