Saturday, November 22, 2014

Franskt eggjabrauð


Um helgar er nauðsynlegt að gera vel við sig, það er svo notalegt að dúllast í eldhúsinu í rólegheitum á morgnana. Hella upp á gott kaffi og útbúa gómsætan morgunmat. Sunnudagar er minn uppáhalds vikudagur, við byrjum á því að fara með Ingibjörgu Rósu í ungbarnasund og förum síðan heim og eldum okkur eitthvað gott á meðan hún sefur vært eftir sundið. Um síðustu helgi eldaði ég franskt eggjabrauð (e. French toast). Eftir að hafa legið yfir uppskriftum að þessu girnilega brauði þá ákvað ég að útbúa mína útfærslu. Þetta er svo gott að þið trúið því ekki, ég skil ekki afhverju ég var ekki verið búin að prófa að elda þetta brauð fyrr. Brauðið verður silkimjúkt með ljúffengum jarðarberjum og sírópi. Ég naut mín í botn þennan morgunin og vildi helst ekki að máltíðin tæki enda. Það er afar heppilegt að nú sé helgin gengin í garð og þetta ljúfenga brauð verður á boðstólnum hjá okkur í fyrramálið.


French Toast.

  • 4 stórar brauðsneiðar
  • 4 Brúnegg
  • 2 dl rjómi
  • 2 msk. appelsínusafi
  • Rifinn appelsínubörkur, um það bil matskeið
  • ½ tsk kanill
  • 1 tsk. Vanilluextract eða dropar
  • Smá skvetta af hlynsírópi eða ein teskeið sykur
Aðferð: Skerið brauðið niður í þykkar sneiðar. Pískið egg og rjóma léttilega saman. Bætið appelsínusafa, kanil, vanillu og sírópi út í og hrærið vel. Hellið blöndunni yfir brauðsneiðarnar og snúið þeim einu sinni við. Leyfið brauðinu að liggja í eggjablöndunni í 2 – 3 mínútur. Hitið smjör á pönnu og steikið á hvorri hlið í nokkrar mínútur eða þar til eggin eru elduð. Gætið þess að hafa ekki of háan hita á pönnunni. Berið brauðin fram með ávöxtum og hlynsírópi. Njótið vel!









 Ég vona að þið eigið góða helgi kæru lesendur.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, November 20, 2014

Heimagert pestó og ljúffengur kjúklingaréttur.


Fyrir rúmlega ári steig ég mín fyrstu skref í sjónvarpi í þáttunum Í eldhúsinu hennar Evu sem sýndir voru á Stöð 3. Það var ákaflega skemmtileg og dýrmæt reynsla, í þáttunum lagði ég ríka áherslu á heimilismat sem allir ættu að geta leikið eftir. Ég er búin að uppfæra uppskriftalistann hér á blogginu og nú getið þið nálgast allar uppskriftir sem voru í þættinum hér á vefnum. Það gleður mig einnig að segja frá því að þættirnir eru nú aðgengilegir á vísi.is. Þið finnið þættina hér undir matur. 

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að heimagerðu pestó og ljúffengum kjúklingarétt sem er í miklu eftirlæti hjá mér.


Rautt og gómsætt pestó
  • 200 g sólþurrkaðir tómatar
  • 90 g furuhnetur
  • 2 hvítlauksrif
  • 150 g ferskur rifinn Parmesan ostur
  • salt og nýmalaður pipar
  • 1 – 2 dl góð ólífuolía

Aðferð: Blandið öllu saman í matvinnsluvél í nokkrar mínútur. Áferðin á pestóinu fer eftir því hversu mikið af olíu þið notið. Það er ágætt að setja olíuna saman við pestóið smám saman. 

Kjúklingabringur í pestói

  • 4 – 5 kjúklingabringur
  • Salt og nýmalaður pipar
  • 1 uppskrift rautt pestó
  • 1 krukka fetaostur + olían í krukkunni

Aðferð: Hitið ofninn í 200°C. Leggið kjúklingakjötið í eldfast mót, það er ágætt að skera bringurnar í tvennt. Kryddið kjúklingakjötið til með salti og pipar.  Blandið pestóinu og fetaostinum saman í skál, það er gott að blanda ostinum saman við pestóið með gaffli. Hellið sósunni yfir kjúklinginn og inn í ofn í 35 – 40 mínútur. Berið kjúklingaréttinn fram með góðu pasta eða hrísgrjónum og fersku salati.

 Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Thursday, November 13, 2014

Ljúffengur lax í sítrónusósu.


Lax er í algjöru eftirlæti hjá mér, það er gaman að matreiða lax og möguleikarnir eru endalausir. Ég bauð stórfjölskyldunni upp á dýrindis fiskrétt í gærkvöldi og þau voru öll afar sæl með matinn. Það er nú bara þannig að stundum hefur maður ekki mikinn tíma til þess að stússast í eldhúsinu og þá er gott að geta farið smá flýtileið, ég prófaði að elda laxinn upp úr ljúffengri sítrónusósu sem ég keypti tilbúna og mig langar að segja ykkur aðeins meira frá þessum sósum.

Simply Add Fish sósurnar eru nýjung á Íslandi. Sósurnar koma með þremur bragðtegundum og eru án allra aukaefna, sem er lykilatriði að mínu mati. Bragðtegundirnar eru Creamy Herb, Touch of Tomato og Lovely Lemon. Ég get sagt ykkur það að sósurnar komu mér mikið á óvart. Ég eldaði laxinn upp úr Lovey Lemon sósunni og fiskurinn var silkimjúkur og mjög bragðgóður.

Þetta er fullkomið þegar tíminn er af skornum skammti eða bara þegar ykkur langar í góðan fiskrétt. Það er þess virði að fara flýtileiðir ef útkoman er gómsæt. Á meðan að fiskurinn var í ofninum þá útbjó ég ofnbakaðar kartöflur og grænmeti. Ég mæli hiklaust með að þið prófið þessar sósur, ég lofa ykkur því að þið verðið ekki vonsvikin.



Ljúffengur lax í sítrónusósu
  • 1 kg lax, beinlaus
  • Salt og nýmalaður pipar
  • 2 pokar Lovely Lemon fiskisósa
  • Ferskt dill, magn eftir smekk

Aðferð: Skolið og hreinsið fiskinn vel áður en þið leggið hann í edfast mót. Það er líka ágætt að skera fiskinn í nokkra bita og snöggsteikja á pönnu. Leggið fiskinn í eldfast mót, kryddið til með salti og pipar og hellið sósunni yfir. Einn poki ætti að duga en við fjölskyldan erum mikið fyrir sósur og þá var fínt að nota 2 poka. Setjið fiskinn inn í ofn við 180°C í 25 – 30 mínútur. Þegar fiskurinn er tilbúinn þá er gott að saxa niður ferskt dill og dreifa yfir.

 Bakaðar karöflur, gulrætur og fennel með fersku dilli.

  • 3 stórar bökunarkartöflur
  • 1 stór sæt kartafla
  • 3 – 4 gulrætur
  • 1 meðalstór fennelbelgur
  • Salt og nýmalaður pipar
  • 2 – 3 msk ólífuolía
  • Sítrónusafi
  • Ferskt dill, smátt saxað

Aðferð: Afhýðið grænmetið og skerið smátt. Skerið endana af fennelbelgjunum og rífið af ystu blöðin ef þau eru ekki falleg. Skerið síðan í tvennt á lengdina og skerið síðan niður litla bita. Setjið grænmetið í eldfast mót og hellið vel af olíu yfir, kryddið til með salti og pipar og blandið öllu vel saman. Bakið við 180°C í 40 – 45 mínútur. Þegar grænmetið er tilbúið þá kreistið þið safann úr ½ sítrónu yfir og blandið dilli saman við. Berið fram með fiskréttum, algjört sælgæti. 






Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Tuesday, November 11, 2014

Smurstöðin

Ég fór ásamt mömmu og ömmu á Smurstöðina í hádeginu. Smurstöðin er nýr veitingastaður á neðstu hæð í Hörpunni sem leggur áherslu á hágæðasmurbrauð þar sem íslenskt hráefni er í hávegum haft. Það er langt síðan ég tók myndavélina með í hádegismat en mér finnst mjög gaman að mynda góðan mat og vil gjarnan deila þeim með ykkur. Við erum allar þrjár mikið fyrir smurbrauð og vorum allar mjög ánægðar með matinn. Smurbrauðin voru eins góð og þau eru falleg, algjör veisla fyrir bragðlaukana. Smurstöðin er frábær veitingastaður sem ég mæli með að þið prófið.


Laxa smurbrauðið er ómótstæðilega gott. 


Fallega og góða amma mín, hún verður 75 ára í næstu viku og við erum byrjaðar að fagna.



Hér skálar móðir mín við mömmu sína. 


Roastbeef smurbrauðið, ég get ekki hætt að hugsa um þessa brauðsneið. 






Ég vona að þið eigið góðan dag framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Monday, November 10, 2014

Fjögurra mánaða


Ingibjörg Rósa er oðin fjögurra mánaða. Hún stækkar svo hratt og er orðin svo dugleg og flott stelpa. Þvílík forréttindi að fá að vera mamma hennar og njóta þess að vera með henni alla daga. 

Þegar hún er sofandi þá er ég í tölvunni að skoða myndir af henni, þessi mynd er til dæmis í miklu uppáhaldi. Lífið hefur vissulega breyst á þessum fjórum mánuðum, til hins betra. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Sunday, November 9, 2014

Instagram @evalaufeykjaran



 1. Jólabaksturinn er hafin hér í Vesturbænum. 
2. Fallega stúlkan mín, hún er orðin fjögurra mánaða. Tíminn flýgur áfram.


 3. Smákökukeppni Kornax og Gestgjafans. Brot af kökunum sem við smökkuðum. 
4. Við mæðgur ætlum alltaf að vera í stíl, það held ég nú.


 5. Uppáhöldin mín tvö, Ingibjörg Rósa alltaf í stuði.
6. Vinkonufögnuður. 


7. Það eru fleiri en ég sem vilja kaffi og muffins. 
8. Áfram með smjörið... smákökufjörið er rétt að byrja. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir


Saturday, November 8, 2014

Sunnudagsbaksturinn

Á sunnudögum er tilvalið að baka eitthvað gott og bjóða fjölskyldu og vinum í kaffi. Ég tók saman nokkrar uppskriftir sem eiga það sameiginlegt að vera ljúffengar. Sjálf ætla ég að baka og fá mitt fólk í kaffi. Það er fátt notalegra. Ég vona að þið eigið góðan sunnudag framundan.  


Amerískar súkkulaðibitakökur. Þessar þurfa allir að prófa. Uppskrift hér. 


Oreo bollakökurnar dásamlegu. Uppskrift hér. 

Kanilsnúðar eru alltaf klassískir og alltaf jafn góðir. Uppskriftin er hér.


Ef ykkur langar í gómsæta hnallþóru þá er þessi án efa málið, súkkulaðibomban góða. Uppskrift hér.


Bananakaka með rjómaostakremi og ristuðum pekanhnetum. Uppskrift hér.



 Þessi vanilluskyrkaka með hvítu súkkulaði er alltaf í miklu eftirlæti hjá mér. Uppskrift hér.



xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Friday, November 7, 2014

Kjúklingur Saltimbocca


Kjúklingur Saltimbocca er Ítalskur réttur og nafnið þýðir eiginlega „Stekkur upp í munninn“ og vísar til þess hve ljúffengur rétturinn þykir. Í upprunalegu uppskriftinni er kálfakjöt notað en oft er kálfakjötinu skipt út fyrir kjúkling. Þessi réttur samanstendur af þunnum kjúklingabringum, hráskinku og salvíublöðum. Þetta er réttur sem á eftir að koma ykkur á óvart. Hann er mjög einfaldur en mamma mía hvað hann er góður. Sannkallaður sælkeraréttur sem þið ættuð að prófa.

Rétturinn er borinn fram með kartöflumús og ljúffengri hvítvínssósu. Njótið vel!

Kjúklingur Saltimbocca.

  •     Fjórar kjúklingabringur
  •     8 hráskinkusneiðar
  •     10 – 12 fersk salvíublöð
  •     Salt og nýmalaður pipar
  •     1 – 2 msk. Ólífuolía

 Aðferð: Skerið kjúklingabringur í tvennt og kryddið með salti og pipar. Leggið eitt salvíublað ofan á kjúklingabringuna og vefjið hráskinkunni utan um hvern bita. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið bringurnar í smá stund á hvorri hlið eða þar til þær eru brúnaðar á öllum hliðum. Leggið bringurnar því næst í eldfast mót og inn í ofn við 180°C i 20 mínútur. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum útbúið þið sósuna og kartöflumús.

Kartöflumús með parmesan osti

  •      500 g soðnar kartöflur 
  •      30 g smjör
  •      1 dl mjólk
  •      Salt og nýmalaður pipar
  •      1 dl rifinn parmesan ostur
Aðferð: Afhýðið kartöflurnar og bræðið smjörið. Setjið kartöflurnar út í smjörið og takið pottinn af hitanum, stappið kartöflurnar vel saman við smjörið og hellið volgri mjólk út í smáum skömmtum. Bætið ostinum við og stappið öllu vel saman þar til réttri áferð er náð, það er smekksatriði hvað þið notið mikla mjólk en þið finnið það um leið ef þið þurfið að bæta við mjólk. Bragðbætið með salti og pipar.

Hvítvínssósa

  • ·         2 msk. Smjör
  • ·         6 - 7  fersk salvíublöð, smátt skorin
  • ·         700 ml hvítvín
  • ·         1 stk. Kjúklingakraftur
  • ·         Nýmalaður pipar
Aðferð: Bræðið smjörið á pönnu og steikið salvíublöðin. Hellið hvítvíninu út á og bætið kjúklingakraftinum saman við. Kryddið til með pipar.  Leyfið sósunni að sjóða í smá stund, lækkið þá hitann og leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.



Góða helgi kæru lesendur.

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

Thursday, November 6, 2014

Að velja bestu jólasmákökuna....


Ég var svo heppin að vera dómari í smákökusamkeppni Kornax og Gestgjafans sem haldin var í október síðastliðinn. Það bárust 160 uppskriftir og sýnishorn af þeim til keppninnar. Það var ekki auðvelt að velja fyrstu sætin því það voru svo margar ljúffengar kökur. Ég er mjög ánægð með kökurnar sem eru í efstu sætunum og ég mæli með að þið nælið ykkur í glæsilegt kökublað Gestgjafans og prófið þessar uppskriftir.  Nú er sko tími til að prófa nýjar sortir og byrja að baka. 


Ég er byrjuð að baka fyrir jólin, er búin að baka þrjár sortir og hlakka til að deila með ykkur uppskriftum að ljúffengum jólasmákökum á næstu dögum. Þessi rjómaostakaka sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan er án efa uppáhalds kakan mín í  ár, hún er alltof góð og ég segi það vegna þess að ég get ómögulega hætt að næla mér í eina og eina.



Efstu sætin. Þessar kökur eru algjört sælgæti. 


Ég er afskaplega hrifin af bökkum og mér finnst þessi handgerði viðarbakki mjög fínn undir matreiðslublöðin mín og kertin... og blómin. Mæli með að þið skoðið úrvalið hjá Snúrunni, þar finnið þið ótrúlega fallegar vörur. 


Hér má sjá brot af kökunum, ójá þetta var sko smákökukeppni í lagi. 


Hér erum við dómararnir mjög södd og sæl eftir allt kökuátið. Með mér í dómnefnd voru Albert Eiríksson, Sigríður Bragadóttir og Auðjón Guðmundsson. Það var afskaplega gaman að taka þátt í að velja bestu jólasmákökuna. 

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir