Friday, November 7, 2014

Kjúklingur Saltimbocca


Kjúklingur Saltimbocca er Ítalskur réttur og nafnið þýðir eiginlega „Stekkur upp í munninn“ og vísar til þess hve ljúffengur rétturinn þykir. Í upprunalegu uppskriftinni er kálfakjöt notað en oft er kálfakjötinu skipt út fyrir kjúkling. Þessi réttur samanstendur af þunnum kjúklingabringum, hráskinku og salvíublöðum. Þetta er réttur sem á eftir að koma ykkur á óvart. Hann er mjög einfaldur en mamma mía hvað hann er góður. Sannkallaður sælkeraréttur sem þið ættuð að prófa.

Rétturinn er borinn fram með kartöflumús og ljúffengri hvítvínssósu. Njótið vel!

Kjúklingur Saltimbocca.

  •     Fjórar kjúklingabringur
  •     8 hráskinkusneiðar
  •     10 – 12 fersk salvíublöð
  •     Salt og nýmalaður pipar
  •     1 – 2 msk. Ólífuolía

 Aðferð: Skerið kjúklingabringur í tvennt og kryddið með salti og pipar. Leggið eitt salvíublað ofan á kjúklingabringuna og vefjið hráskinkunni utan um hvern bita. Hitið ólífuolíu á pönnu og steikið bringurnar í smá stund á hvorri hlið eða þar til þær eru brúnaðar á öllum hliðum. Leggið bringurnar því næst í eldfast mót og inn í ofn við 180°C i 20 mínútur. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum útbúið þið sósuna og kartöflumús.

Kartöflumús með parmesan osti

  •      500 g soðnar kartöflur 
  •      30 g smjör
  •      1 dl mjólk
  •      Salt og nýmalaður pipar
  •      1 dl rifinn parmesan ostur
Aðferð: Afhýðið kartöflurnar og bræðið smjörið. Setjið kartöflurnar út í smjörið og takið pottinn af hitanum, stappið kartöflurnar vel saman við smjörið og hellið volgri mjólk út í smáum skömmtum. Bætið ostinum við og stappið öllu vel saman þar til réttri áferð er náð, það er smekksatriði hvað þið notið mikla mjólk en þið finnið það um leið ef þið þurfið að bæta við mjólk. Bragðbætið með salti og pipar.

Hvítvínssósa

  • ·         2 msk. Smjör
  • ·         6 - 7  fersk salvíublöð, smátt skorin
  • ·         700 ml hvítvín
  • ·         1 stk. Kjúklingakraftur
  • ·         Nýmalaður pipar
Aðferð: Bræðið smjörið á pönnu og steikið salvíublöðin. Hellið hvítvíninu út á og bætið kjúklingakraftinum saman við. Kryddið til með pipar.  Leyfið sósunni að sjóða í smá stund, lækkið þá hitann og leyfið sósunni að malla í nokkrar mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn.



Góða helgi kæru lesendur.

xxx

Eva Laufey K. Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment