Wednesday, June 3, 2015

Heimabakað brauð með gómsætum fyllingum


Þetta brauð er mikilu eftirlæti hjá mér en mamma mín bakaði það mjög oft þegar ég var yngri. Það er fullkomið eitt og sér eða með öðrum aðalréttum t.d. góðum súpum. Þið getið auðvitað fyllt brauðið með því sem að ykkur lystir en hér eru tvær tillögur að fyllingum sem ég mæli með. 


Gómsæt fyllt brauð


240 ml volgt vatn (mikilvægt að vatnið sé volgt)
2 ½ tsk þurrger
1 msk hunang
400 – 450 g hveiti 
1 tsk salt 
2 msk olía 

Aðferð:

Blandið volgu vatni, geri og hunangi saman í skál. Leggið viskastykki yfir skálina og leyfið gerinu að leysast upp í rólegheitum, eða í 5 – 6 mínútur. Um leið og það byrjar að freyða í skálinni þá er gerblandan tilbúin. Hellið gerblöndunni í hrærivélaskál og bætið öllum hráefnum saman við, það er góð regla að bæta hveitinu smám saman við. Látið deigið hnoðast í vélinni í 6 – 10 mínútur eða þar til deigið er orðið í laginu eins og kúla. Setjið viskastykki yfir hrærivélaskálina og leyfið deiginu að hefast í klukkustund eða þar til þar hefur tvöfaldast að stærð.

Skiptið deiginu í tvo hluta og stráið hveiti á borðið og fletjið það út. Fyllið með góðu hráefni og hér fyrir neðan eru tvær tillögur að fyllingum.

Fyllingar:

2 dl olía
2 hvítlauksrif
salt
ólífur
sólþurrkaðir tómatar
hægeldaður kúrbítur
hægeldaðir tómatar
rifinn ostur

2 dl olía
2 hvítlauksrif
salt
1 msk tómatpúrra
1 bréf skinka með pestó
1 góður hvítmygluostur
oreganó
rifinn ostur

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Leggið deigið á pappírsklædda bökunarplötu. Búið til hvítlauksolíu með því að blanda olíu og hvítlauk saman ásamt smá salti. Bætið tómatpúrru út í við ef þið viljið tómat- og hvítlauksolíu. Skerið hráefnið niður og fyllið brauðin. Setjið rifinn ost yfir og lokið brauðinu. Penslið smá olíu ofan á brauðið og ég mæli með að þið dreifið smá osti yfir í loki. Bakið brauðin við 180°C í 10 – 12 mínútur eða þar til það er orðið gullinbrúnt.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


No comments:

Post a Comment