Sunday, November 22, 2015

Grænmetisbaka með fetaosti.


Bökur fylltar með allskyns góðgæti, bæði sætar og ósætar eru algjört lostæti. Eins og ég sagði ykkur frá í síðustu færslu vorum við Haddi í París fyrir nokkrum vikum og auðvitað fékk ég mér Quiche Lorraine og sætar bökur með vanillubúðingi og berjum. Bökur eru franskar að uppruna og því algjör skylda að fá sér slíka ef maður er staddur í Frakklandi. Ég hef oft deilt uppskriftum að bökum hér á blogginu en það skemmtilega við bökur eru að þær eru aldrei eins og það er hægt að gera þær á svo marga vegu. Þessa grænmetisböku gerði ég fyrr í vikunni og mér fannst hún svakalega góð og verð að deila henni með ykkur, það er tilvalið að bera hana fram í brönsinum. Maður fær allt í einum bita ef svo má segja, stökkur botn fylltur með ljúffengri eggjablöndu og allskyns góðu grænmeti. Það má svo auðvitað leika sér með þessa fyllingu að vild, möguleikarnir eru endalausir. 


Grænmetisbaka með fetaosti 

Grunndeig fyrir quiche bökur

  • 200 g Kornax heilhveiti 
  • 100 g kalt smjör 
  • smá salt 
  • 1 eggjarauða 
  • 3 - 4 msk ískalt vatn 
Aðferð:
  1. Skerið smjörið í litla bita og hnoðið saman við heilhveitið. 
  2. Saltið deigið og vinnið deigið vel saman, bætið eggjarauðu og vatni saman við og gætið þess að vinna það ekki of mikið. 
  3. Pakkið deiginu inn í plastfilmu og geymið í kæli í 30 mínútur. 
  4. Fletjið deigið þunnt út og setjið í form, gatið hér og þar með gaffli. Setjið bökunarpappír yfir deigið í forminu og fyllið upp með hrísgrjónum eða bökunarbaunum til að botninn formist vel. 
  5. Bakið botninn við 200°C í 10 - 15 mínútur eða þar til hann hefur fengið smá lit. Á meðan botninn er í ofninum er fyllingin útbúin. 
Grænmetis- og eggjafylling 

  • 1 msk ólífuolía 
  • 1/2 blaðlaukur, smátt skorinn
  • 1 rauð paprika, smátt skorin 
  • 1 meðalstórt spergilkálshöfuð, skorið í litla bita 
  • 6 Brúnegg 
  • 3 msk sýrður rjómi 
  • salt og nýmalaður pipar
  • 1 tsk karrí 
  • Fetaostur (ég notaði fetaostinn í bláu krukkunni frá MS), magnið eftir smekk 
Aðferð: 

  1. Hitið olíu við vægan hita.
  2. Skerið grænmetið smátt, byrjið á að steikja blaðlaukinn þar til hann fer að mýkjast. Bætið síðan öllu grænmetinu út á pönnuna og kryddið til með karrí, salti og pipar. Ég setti eins og 2 msk af vatni saman við og leyfði þessu að krauma á pönnunni í 5 mínútur. 
  3. Pískið 6 egg í skál og setjið sýrða rjómann saman við og hrærið vel. Kryddið með salti og pipar. 
  4. Dreifið grænmetisblöndunni yfir grunndeigið og hellið eggjablöndunni yfir. Setjið fetaostinn yfir í lokin og magnið fer eftir smekk. 
  5. Bakið við 180°C í 25 - 30 mínútur eða þar til bakan er orðin stíf og gullinbrún.
  6. Berið bökuna gjarnan fram með fersku salati og góðri dressingu. 












Bon appétit!

xxx 

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


No comments:

Post a Comment