Í gærkvöldi fór fram landssöfnun Samhjálpar til uppbyggingar á meðferðarheimilis í Hlaðgerðarkoti. Söfnunin gekk frábærlega og við söfnuðum rúmlega 80 milljónum sem er algjörlega frábært, það var svo gaman að fá að taka þátt í söfnuninni en við Ásgeir Erlendsson vorum í símaverinu með fullt af skemmtilegu fólki. Ég var svo sátt og sæl þegar ég vaknaði í morgun að ég varð að baka eina gómsæta köku. Mig langaði auðvitað í súkkulaðiköku og ég átti til ljúffenga karamellusósu sem passaði fullkomnlega með súkkulaðinu. Úr varð sænsk kladdkaka með þykkri karamellusósu. Þið ættuð að skella í þessa köku sem allra fyrst, lofa að þið eigið eftir að elska þessa.
Mjúk súkkulaðikaka með fljótandi karamellusósu
- 150 g smjör
- 2 Brúnegg
- 2 dl sykur
- 3 dl Kornax hveiti
- 1 tsk lyftiduft
- 2 tsk vanilla extract (eða dropar/sykur)
- 4 msk kakó
- Ögn af salti
- 3 - 4 msk Dulce de leche karamellusósa
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Bræðið smjör við vægan hita.
- Þeytið saman egg og sykur þar til blandan verður létt og ljós.
- Blandið þurrefnum saman og blandið varlega saman við eggjablönduna með sleif.
- Hellið smjörinu og vanillu saman við og hrærið með sleif, saltið smávegis.
- Smyrjið form og hellið deiginu í formið.
- Setjið karamellusósuna yfir deigið.
- Bakið við 180°C í 18 - 20 mínútur, kakan á að vera svolítið blaut.
- Kælið á meðan þið útbúið kremið.
Súkkulaðikremi með karamellusósu
- 70 g smjör
- 120 g suðusúkkulaði
- 2 msk síróp
- smávegis af salti
- 2 msk Dulce de leche
Aðferð:
- Brjótið súkkulaðið og bræðið saman við smjörið við vægan hita, ekki fara frá pottinum. Það er mjög auðvelt að brenna þessa góðu sósu.
- Bætið sírópinu og karamellusósunni við í lokin, hrærið saman og hellið yfir kökuna.
Berið kökuna fram með flórsykri og þeyttum rjóma, ég lofa ykkur því að kakan mun slá í gegn.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefnin sem notuð eru í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.
Líst vel á þessa en fyrir mig sem hef ekki aðgang að Hagkaup.. er þetta bara karmellu íssósa ?
ReplyDeleteÉg mæli með að þú kaupir þykka karamellusósu, þær fást í öllum helstu matvöruverslunum landsins. Íssósa er sennilega of þunn :)
Delete