Wednesday, June 29, 2016

Guðdómlegt epla- og bláberjacrumble

Í gærkvöldi ákvað ég að baka þessa einföldu epla- og bláberjaböku eftir kvöldmatinn. Það var svolítið haustlegt úti, pínu kalt og rigning.. fullkomið veður fyrir kertaljós, köku sem yljar að innan og sjónvarpsgláp. Ég var stjörf yfir þáttum sem sýndir eru á Stöð 2 sem heita Killer Women með Piers Morgan, þættirnir eru bara tveir og ég mæli með að þið leigið þá á vodinu ef þið eruð ekki búin að sjá þá. Þeir eru mjög góðir og ég mæli alveg með því að maula á einhverju góðu eins og þessari böku yfir þáttunum. 

Ég notaði heilhveiti að þessu sinni og mér finnst það betra en hvítt hveiti í þessa köku, hef núna prófað hvoru tveggja og verð að segja að heilhveitið hefur vinninginn. Mylsnan verður grófari og einhvern hátt bragðmeiri. Ég mæli með að þið skellið í þessa einföldu böku, þið getið bæði bakað hana í ofni eða grillað á grillinu. Algjör snilld!

Guðdómlegt epla- og bláberjacrumble

  • 5 græn epli
  • 1 bolli bláber, fersk eða frosin
  • 1 – 1½ tsk kanill
  • 2 tsk sykur
  • 1 tsk vanillusykur
  • 70 g súkkulaði
  • Mylsna:
  • 80 g Kornax heilhveiti
  • 80 g sykur
  • 100 g smjör
  • 50 g kókosmjöl

Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 180°C.
  2. Flysjið eplin, fjarlægið kjarna og stilka.
  3. Skerið eplin í litla bita og dreifið eplabitunum í eldfast mót. 
  4. Blandið sykri, vanillusykri og kanil saman við eplin.
  5. Saxið súkkulaði og dreifið yfir eplin. 
  6. Næsta skref er að útbúa deigið sem fer ofan á eplin. Blandið heilhveiti, sykri, smjöri og kókosmjöli saman í skál og blandið saman með höndunum. 
  7. Dreifið deiginu yfir eplin og bakið í ofni við 180°C í 35-40 mínútur.

Berið fram með vanilluís og karamellusósu.


Njótið vel. 
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups

Friday, June 24, 2016

I N S T A G R A M

1. Við Haddi fórum eitt kvöldið á Kolabrautina. Dýrlegur matur og útsýni, já það þótti nauðsynlegt að pósa með þetta hvítvínsglas. 
2. Mamma mín fína á Mamma Mia. Frábær sýning sem allir ættu að sjá. 

3. Ingibjörg Rósa er auðvitað snillingur og farin að spila leikandi á píanó, eða svona... allt í áttina. 
4. Rikka og Andri, þau tvö eru í sérstöku uppáhaldi. 

5. Haddi og Ingibjörg Rósa á fallegum degi á Akranesi. 
6. Við mæðgur á afmælisdaginn minn. 

7. Pizzaveisla með vinkonum. 
8. Mánudags, föstudags og sunnudagsblómin... jájá mér finnst gaman að kaupa blóm. 
9. Við systur í þrítugsafmæli Eddu okkar
10. Súkkulaðidásemdin 
11. Pizzabakstur í fyrsta sinn með dömunni minni. 
12. Útihlaup í sumarveðri = geggjað!


13. Tásurnar kældar niður eftir hlaup
14. Sigur sumarsins.. Hálfmaraþon með vinkonu minni henni Gunnhildi. Annað árið í röð sem við förum saman og náðum við báðar að bæta tímann okkar frá því í fyrra. Ótrúlega gaman - hlakka til á næsta ári. 

Þið finnið mig á Instagram undir evalaufeykjaran sem og á Snapchat. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Tuesday, June 21, 2016

Heilhveitibrauð með sólblómafræjum

Í gær eldaði ég grænmetissúpu og bakaði einnig einfalt heilhveitibrauð með sólblómafræjum sem ég var svo ánægð með að ég verð að deila uppskriftinni með ykkur. Ég nota heilhveiti talsvert mikið í bakstur en heilhveiti er malað með kími og klíði og því mun næringarríkara en hvítt hveiti. Heilhveitið hentar vel til brauðgerðar en deig úr því er þó aðeins þyngra í sér en brauð úr hvítu hveiti, svo ef þið eigið uppskriftir þar sem eingöngu hvítt hveiti er notað þá er ágætt að setja minna af heilhveiti, alltaf að setja minna en meira en þá er svo auðvelt að bæta við ef þess þarf.

Fullkomið brauð fyrir útileiguna í sumar, tilvalið að skera það niður og setja gott álegg á milli og skella sér út í náttúruna. Einfaldara verður það ekki og ég hvet ykkur til þess að prófa þessa uppskrift.


Heilhveitibrauð með sólblómafræjum

  • 100 g brætt smjör
  • 4 dl nýmjólk
  • 1 bréf þurrger (12 g bréfið)
  • 1 msk hunang
  • 1 tsk salt
  • 400 g kotasæla
  • ca. 750-800 KORNAX heilhveiti (+ aðeins meira ef þarf) 
  • 1 egg 
  • Sólblómafræ

Aðferð:

  1. Bræðið smjör í potti, bætið mjólkinni, þurrgerinu og hunanginu saman við og hrærið vel saman.
  2. Hellið blöndunni í hrærivélaskál ásamt saltinu, kotasælunni og hveitinu.
  3. Hnoðið deigið í hrærivélinni í um það bil 8 mínútur. (Það tekur aðeins lengri tíma að gera það í höndunum)
  4. Stráið hveiti á borðflöt og hnoðið deigið í smá stund með höndunum og mótið eina stóra kúlu.
  5. Færið kúluna yfir í hreina skál og leggið viskastykki yfir skálina. Leyfið deiginu að hefast í rúmlega klukkustund eða þar deigið hefur tvöfaldast að stærð.
  6. Hitið ofninn í 200°C (blástur)
  7. Skiptið deiginu niður í jafn stóra bita og mótið kúlur.
  8. Raðið kúlunum á pappírsklædda ofnplötu, þétt upp við hvor aðra. 
  9. Penslið brauðið með eggi og sáldrið sólblómafræjum yfir. 
  10. Bakið við 200°C í 15-20 mínútur. 



Njótið vel. 

xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

Monday, June 20, 2016

Lúxus vinkonuferð á Hótel Grímsborgum

Á þessum rigningarmánudegi er ágætt að rifja upp uppáhalds helgi í maí mánuði. Við vinkonurnar fórum í kærkomið orlof. Við fórum þrjár í þetta skiptið en það vantaði tvo úr hópnum okkar góða en þau eru bæði búsett erlendis, við höfum nefnilega undanfarin tvö ár farið til útlanda saman en það var ekki möguleiki þetta árið svo við ákváðum að gera vel við okkur hér á Íslandi. Það er nefnilega líka hægt að gera eitthvað saman án þess að þurfa að fara endilega erlendis, það er alls ekki síðra að fara út á land og gista á stjörnuhóteli eins og á á Hótel Grímsborgum. 

Ég hef sjaldan haft það eins huggulegt og þessa helgi, við gerðum mjög vel við okkur í mat og drykk og nutum þess að vera saman. Það skemmdi ekki fyrir að hótelið er eitt fallegasta sem hef ég komið á, við vorum svo heppnar að dvelja í einbýli og höfðum allt til alls. Upphaflega stóð til að skella okkur í bústað en því fylgir oft mikil vinna þ.e.a.s. pakka öllu niður, kaupa inn, koma sér fyrir, elda og pakka svo niður og þrífa. Við vildum helst sleppa við allt þar sem tíminn var naumur og því leyfðum við okkur lúxus að þessu sinni og sjáum alls ekki eftir því. Að mínu mati er þetta fullkomið fyrir vinahópa, að skella sér út fyrir bæinn og leyfa sér smá lúxus, kostar kannski aðeins meira en afþví maður er nú ekki að gera þetta á hverjum degi þá er það í góðu lagi. Mig langar að deila með ykkur nokkrum myndum af þessu góða fríi <3


Allar góðar ferðir byrja á skál!


Fríða og Eva, sjáið bara hvað þær eru sætar!
Maturinn er algjört gúrme, ég hef ekki hætt að hugsa um nautakjötið sem ég fékk í aðalrétt. Það er einmitt þetta sem við elskuðum, að vera í bústað en klæða okkur aðeins upp og fara út að borða. Fá okkur kokteil, góðan mat og fara síðan aftur í bústaðinn. Það fannst okkur algjört æði!
Morgunmaturinn ó morgunmaturinn, afhverju er þetta ekki svona á hverjum morgni. 
Húsið sem við dvöldum í var svo fallega innréttað að við vorum mjög lengi að skoða og dást af húsinu, virkilega smekklegt og bjart. 
Við vorum mjög endurnærðar eftir þessa ferð og ég get ekki beðið eftir því að fara aftur. 
Ég myndi gera margt fyrir þennan heita pott og þetta umhverfi í dag... jæks. Kannski ætti ég ekki að fara yfir þessar myndir á mánudegi haha. Nú ætla ég að skipuleggja aðra ferð með stelpunum, þetta var æði og ég mæli með að þið skellið ykkur í svona lúxus ferð í dásamlegu umhverfi. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir