Sunday, June 12, 2016

Þjóðhátíðarkakan 2016





Á morgun hefst sannkölluð þjóðhátíðarvika, svei mér þá. Á þriðjudaginn keppir Ísland sinn fyrsta leik á evrópumótinu og ættum við að sjálfsögðu að baða okkur í fánalitunum. Á föstudaginn er svo þjóðhátíðardagurinn okkar 17.júní og á hverju ári þá baka ég þjóðhátíðarköku. Í ár er það þessi ljúffenga vanillukaka með rjómaostakremi með keim af sítrónu, skreytt með berjum að sjálfsögðu. 

Það er þess vegna miklu meira en tilvalið að skella í þessa einföldu og góðu köku í vikunni, hóið í fjölskylduna og vini og bjóðið heim í kökupartí. Það ætla ég svo sannarlega að gera! Hér kemur uppskriftin og ég vona að þið njótið vel. 



Vanillukaka með ljúffengu rjómaostakremi 

  • 200 g flórsykur
  • 200 g smjör, við stofuhita
  • 2 egg 
  • 230 g Kornax hveiti 
  • 1 tsk lyftiduft 
  • 2 tsk góð vanilla t.d. vanilla extract 
  • 1 1/2 dl sjóðandi heitt vatn 
  • Safi og börkur úr hálfri sítrónu

Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 175°C. 
  2. Hrærið flórsykri, smjöri og eggjum saman í 2 - 3 mínútur eða þar til blandan verður orðin létt og ljós. 
  3. Bætið hveiti og lyftidufti út í blönduna og hrærið vel. 
  4. Hellið vanillu,vatni, sítrónusafa og berki saman við í lokin og hrærið vel eða þar til deigið verður slétt og silkimjúkt. 
  5. Smyrjið hringlaga form og hellið deiginu í formið, bakið við 175°C í 30 mínútur. 
Kælið kökuna á meðan þið útbúið kremið. 

Rjómaostakrem 

  • 230 g smjör, við stofuhita 
  • 500 - 600 g flórsykur 
  • 2 tsk vanilla 
  • 100 g hvítt súkkulaði 
  • 125 g hreinn rjómaostur frá MS
  • 1 msk sítrónusafi 
Aðferð: 

  1. Þeytið saman smjör, flórsykur og rjómaost í nokkrar mínútur eða þar til blandan verður silkimjúk. 
  2. Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og bætið út í ásamt vanillu og sítrónusafa.
  3. Þeytið kremið þar til það verður mjúkt, það tekur um það bil 3  - 4 mínútur. 
  4. Setjið kremið í sprautupoka og sprautið á milli botnanna og ofan á kökuna. 
  5. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum og sáldrið svolítið af flórsykri yfir 
Ath! Gott er að geyma kökuna í kæli í svona 1 - 2 klst áður en þið berið hana fram en þá er betra að skera kökuna þar sem kremið hefur þá stífnað örlítið. 



Ég vona að þið njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir 

Öll hráefnin í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups

No comments:

Post a Comment