Thursday, December 6, 2012

Kjúklingur í pestójógúrtsósu með ofnbökuðu grænmeti

 Okkur ömmu langaði í eitthvað voðalega gott í gærkvöldi, eitthvað einfalt og gott. Við drifum okkur út í Krónu um kvöldmatarleytið. Við stóðum lengi hjá kjötborðinu, skoðuðum úrvalið fram og tilbaka með tilheyrandi valkvíða. Að lokum þá gripum við pakka af kjúklingabringum með okkur , þá var bara spurningin hvernig við ætluðum að matreiða kjúklinginn. Við vorum ekki lengi að ákveða okkur, kjúklingabringur í pestó er í miklu eftirlæti hjá okkur báðum svo við ákváðum að hafa þann rétt í matinn með smá breytingum. Við gripum rautt pestó, fetaost, grískt jógurt og allskyns grænmeti með okkur líka.
Þá gátum við loksins drifið okkur heim að elda!  

Kjúklingur í pestójógúrtsósu með ofnbökuðu grænmeti.
Uppskrift miðast á við 3 - 4.

1 pakki kjúklingabringur (3 - 4)
1 krukka rautt pestó
3 msk grískt jógúrt
2 msk fetaostur 
1 msk olían af fetaostinum
salt og pipar

Aðferð 
 1. Blandið pestóinu og jógúrtinu saman í skál             2. Bætið fetaostinum og olíunni saman við.
 4. Skolið kjúklingabringurnar og skerið þær í tvennt. Kryddið þær til með salti og pipar. Leggið kjúklingabringurnar í eldfast mót og dreifið pestóblöndunni yfir. 

5. Setjið kjúklingaréttinn inn í ofn við 180°C í 35 - 40 mínútur. 
 Ofnbakað grænmetið í álpappír
Þið getið auðvitað notað hvaða grænmeti sem er, en ég mæli hiklaust með því að baka grænmetið í álpappír í ofni. Grænmetið var silkimjúkt og var mjög bragðgott.
Það grænmeti sem ég notaði að þessu sinni : 

1 rauð paprika
1/2 spergilkálshöfuð
4 - 5 gulrætur
1/4 púrrulaukur
1 msk fetaostur
smjörklípa

Aðferð. 
Skerið grænmetið mjög smátt niður og dreifið á álpappír, setjið fetaost saman við og smá smjörklípu. Það er auðvitað hægt að nota olíu í staðinn fyrir smjör en við amma kusum smjörið að þessu sinni. Kryddið til með salti og pipar. Brjótið álpappírinn saman og passið að hann sé alveg lokaður. 
Inn í ofn við 180°C í 35 - 40 mínútur. 
 Ilmurinn af matnum var dásamlegur og bragðið ekki síðra. Berið réttinn fram með einföldu salati og ef til vill hrísgrjónum. Pestósósan var mjög góð og ég mæli svo sannarlega með að bæta gríska jógúrtinu saman við, vanalega þá hef ég bara notað pestó og fetaost en sósan verður betri og þykkari með því að bæta jógúrtinu saman við. Amma var mjög ánægð með matinn og ég var virkilega sæl með það. Það er svo gaman að elda fyrir ömmu, hún hefur eldað fyrir mig svo marga góða rétti í gegnum árin svo það er sérdeilis skemmtilegt að elda fyrir hana. 
 Ég naut þess að borða góðan mat og eiga huggulegt kvöld með ömmu minni Stínu. 
Hún er búin að vera á fullu í bakstrinum fyrir jólin og ég fékk dásamlegar smákökur í eftirrétt, reyndar er það nú alltaf þannig hjá ömmu að áður en maður veit af þá eru komnar ótrúlega margar sortir af góðgæti fyrir framan mann og amma stendur yfir og segir manni að fá sér. Þá auðvitað hugsa ég um hvað ég eigi það nú skilið þrátt fyrir sífellt kökuát.
Get nú ekki neitað henni ömmu...

Ég vona að þið eigið ljúfan fimmtudag kæru vinir

xxx

Eva Laufey Kjaran

No comments:

Post a Comment