Árið 2012 er senn á enda, mjög gott ár sem hefur verið viðburðarríkt og mjög lærdómsríkt. Undanfarin tvö ár þá hef ég litið yfir bloggfærslur ársins og tekið saman þær færslur sem hafa verið vinsælastar það árið. Það kom mér skemmtilega á óvart að bakstursfærslurnar eru mjög vinsælar. Bakstur er svo sannarlega í uppáhaldi hjá mér svo það gleður mig að sjá að þið hafið líka mjög gaman af bakstrinum.
Mig langar til þess að byrja á að þakka ykkur lesendum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Þúsund þakkir fyrir falleg orð, athugasemdir og tölvupósta sem ég hef fengið frá ykkur. Það er ómetanlegt að eiga góða lesendur og mér þykir ótrúlega vænt um að þið skulið gefa ykkur tíma til þess að líta hér inn á bloggið mitt. Þúsund þakkir, þið eruð frábær. .
Ég tók saman nokkrar færslur sem hafa verið vinsælar árið 2012, ég vona að þið njótið vel kæru vinir.
Vinsælasta uppskrift/færsla ársins var Mexíkósk kjúklingasúpa. Það kemur mér lítið á óvart, þessi súpa er svakalega góð og á alltaf vel við. Ég hef ekki tölu á því hve oft ég hef eldað þessa súpu þetta árið. Það er fátt betra en að gæða sér á henni á köldu vetrarkvöldi.
Oreo bollakökurnar voru sérdeilis vinsælar þetta árið enda með eindæmum dásamlegar bollakökur. Að mínu mati er allt sem inniheldur Oreo ofsalega gott.
Þessi fiskréttur er sá allra besti sem ég hef smakkað, uppskriftin kemur frá móður minni. Ég lét uppskriftina inn að þessum fiskrétt árið 2011 en mér finnst hún vel eiga heima yfir vinsælustu færslurnar árið 2012 vegna þess að hún er mikið skoðuð þessi færsla. Fiskrétturinn hennar mömmu er algjört afbragð.
Gulrótarkakan dásamlega á svo sannarlega skilið að vera á þessum lista. Kremið er það besta sem ég hef smakkað, ég fann uppskriftina að kreminu í matreiðslutímariti. Ég er sérlega mikið fyrir gulrótakökur og þessi er líklega sú besta sem ég hef smakkað.
Einfaldleikinn er oft bestur og þessi eplakaka er gott dæmi um það. Þessi kaka er virkilega einföld og fljótleg en bragðast guðdómlega. Mjög gott að bera hana fram með ís og karamellusósu. Ég baka þessa köku mjög oft, sérstaklega þegar von er á gestum með stuttum fyrirvara.
Mexíkósk matargerð er í miklu uppáhaldi hjá mér og það er gaman að sjá að þið hafið líka gaman af. Ég bjó til mexíkóskt lasagna handa bræðrum mínum og þeir voru ferlega ánægðir með réttinn svo ég ákvað að deila þessum rétti með lesendum og hann hefur verið mjög vinsæll hér á blogginu.
Ég keypti mér nokkra kökustúta frá Wilton fyrr á þessu ári og síðan þá hef ég mikið verið að skreyta kökur svo þær líti út eins og rósir. Mér finnst það sérstaklega fallegt. Vanillubollakökur eru alltaf vinsælar og einfalt smjörkrem, í færslunni eru einnig skref fyrir skref myndir sem sýna hvernig eigi að búa til rósir á kökur.
Vinahópurinn hélt tvö Babyshower á árinu. Babyshower eða gjafaveislur eru veislur sem haldnar eru til heiðurs tilvonandi mæðrum. Líkt og nafnið gefur til kynna þá er hugmyndin með slíkri veislu að tilvonandi móðirin sé böðuð í gjöfum. Fáar veislur eru eins skemmtilegar þar sem vininir leggja allir hönd á plóg til þess að undirbúa veislu fyrir vinkonu sem á von á sínu fyrsta barni. Mikil stemmning og eftirvænting ríkir í vinahópnum eftir litla krílinu.
Það er nú fátt sem jafnast á við sænsku kanilsnúðana með glassúr. Þeir eru ljómandi góðir og fanga svo sannarlega augað. Snúðarnir eru bestir nýkomnir út úr ofninum og ískalt mjólkurglas verður að fylgja með. Ég baka þessa snúða oft á sunnudögum og ég gjörsamlega elska lyktina af þeim. Heimilið verður mun huggulegra.
Franskar Makrónur. Ég fór til Parísar árið 2011 með manni mínum og það var frábært frí. París er ótrúlega falleg og skemmtileg borg. Ég naut þess að skoða bakaríin og gæða mér á petit-sætabrauðum.. Við fórum nokkur kvöld á Ladurée og fengum okkur gómsætar makrónur og drukkum kampavín með, það er allt leyfilegt í París. Ég ákvað að prufa að gera Makrónur þegar heim væri komið sem og ég gerði með ágætum árangri, auðvitað voru þær ekki samanburðarhæfar við kökurnar í Ladurée en góðar voru þær.
Ég komst alla leið til Parísar í huganum og naut þess í eitt augnablik!
Ég komst alla leið til Parísar í huganum og naut þess í eitt augnablik!
Ég baka mikið af smábitakökum og mér finnst mjög gott að gæða mér á nýbakaðri smábitaköku. Það er virkilega einfalt og fljótlegt að baka smábitakökur. Þessar kökur eru í uppáhaldi hjá mömmu minni svo þær fá auðvitað að vera með á listanum. Eins og þið hafið kannski tekið eftir þá er hvítt súkkulaði í miklu eftirlæti hjá mér og nota ég það mikið í baksturinn. Ég mæli hiklaust með þessum súkkulaðibitakökum.
Gleðilegt ár og takk fyrir flottar hugmyndir og skemmtilegt bloggár 2012
ReplyDeletekveðja
Kristín S
Gleðilegt nýtt ár sömuleiðis Kristín og takk fyrir að fylgjast með blogginu mínu. Bestu kveðjur til þín.
DeleteGleðilegt nýtt ár! Hlakka til að fylgjast með blogginu þínu áfram á nýju ári.
ReplyDeleteÉg prófaði nú í kvöld að gera fiskréttinn og ég er sammála um að þetta er besti fiskréttur sem ég hef smakkað. Hann er algjört nammi.
Hef einnig prófað kanilsnúðana og þeir standa alltaf fyrir sínu.
Næst mun ég prófa oreo bollakökurnar! :)
Hlakka til að prófa fleiri uppskriftir hjá þér á nýja árinu..
Mikið gleður það mig að heyra Anna Lilja. Gleðilegt nýtt ár og þúsund þakkir fyrir að fylgjast með blogginu. Bestu kveðjur til þín.
DeleteGleðilegt nýtt ár :) Hef rosalega gaman af blogginu þínu þar sem ég elska að elda og prófa eitthvað nýtt.
DeleteÉg finn hvergi oreo smáköku uppskriftina þína langar rosalega mikið að prófa þær, getur þú bent mér á hana :)?