Sunday, May 19, 2013

Bananabollakökur með dásamlegu kremi


Löng helgi og því algjörlega tilvalið að baka eitthvað gómsætt handa fjölskyldu og vinum. Ég mæli með þessum sykursætu bananabollakökum sem ég bakaði í vikunni handa Menntamálanefndinni minni sem ég var að kveðja. Ég lauk setu minni í Stúdentaráði SHÍ í vikunni og lét sömuleiðis af formannsembætti Menntamálanefndar SHÍ. Ég var svo heppin að vinna með frábæru fólki í nefndinni minni. Við nutum þess að borða kökur og drekka mjólk á lokafundi annarinnar. 

Ég ætla að deila með ykkur menntamálabollakökum með uppáhalds kreminu mínu. 



Bananabollakökur

250 g sykur 
140 g smjör
2 egg
250 g hveiti 
1 tsk lyftiduft
2 tsk vanillusykur
2 dl mjólk
1 stappaður banani

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C. Hrærið smjör og sykur saman í hrærivél og bætið síðan eggjum saman við, fyrst öðru og svo hinu. Blandið hveiti og lyftidufti saman í annarri skál og sigtið blönduna 2-3 sinnum. Bætið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna í smáum skömmtum ásamt mjólkinni og vanillu. Bætið stöppuðum banana saman við í lokin og hrærið vel í blöndunni.  Skiptið deiginu í pappaform og bakið í 18 - 20 mín. Látið kökurnar standa í 10 mín áður en kremið er sett á þær. 

Hvítt súkkulaðikrem

230 g smjör, við stofuhita 
4 - 5 dl flórsykur
2 tsk vanilla extract eða vanillusykur
200 g hvítt súkkulaði, brætt yfir vatnsbaði

Aðferð:

Hrærið saman smjör og flórsykur í hrærivél í nokkrar mínútur. Bræðið hvítt súkkulaði ( mér finnst best að nota hvítt súkkulaði frá Nóa Síríus) yfir vatnsbaði, blandið súkkulaðinu og vanillu saman við smjörblönduna. Blandið öllu vel saman í hrærivélinni í 3 - 4 mínútur. Ég bætti nokkrum dropum af matarlit saman við vegna þess að ég vildi hafa kremið bleikt, ég nota gel matarliti frá Wilton.  Að mínu mati eru gel matarlitir bestir. 

Skreytið kökurnar að vild, ég skreytti þær með Wilton stút númer 2D. 


Menntamálanefnd SHÍ 2012 - 2013. 

Eva Brá, Auður Tinna, Eva Laufey og Stefán Óli. 

Ég vona að þið eigið góðan sunnudag framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

2 comments:

  1. Mjög girnilegt. Ætla að baka þetta næstu helgi með dóttur minni.

    ReplyDelete
  2. Sæl, hvað koma sirka margar kökur úr þessari uppskrift?

    Kv.Eva Björk

    ReplyDelete