Wednesday, October 23, 2013

Hægeldað lambalæri með piparostasósu og ljúffengur berjadesert.





Hægeldað lambalæri
  • 1 lambalæri ca. 3 kg
  • ólífuolía
  • 1 - 2 msk. Lamb Islandia
  • salt og pipar (magn eftir smekk)
  • 10 - 12 kartöflur
  • 1 - 2 sætar kartöflur
  • 6 - 8 gulrætur
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • 1 kúrbítur
  • 1 laukur
  • 700 ml vatn


Bakarofn hitaður í 110°C undir-og yfirhita. Skolið lambalærið og þerrið. Skerið grænmetið í heldur smáa bita og setjið í ofnpott, veltið upp úr smá ólífuolíu og saltið og piprið. Hellið vatninu yfir grænmetið. Nuddið lærinu upp úr ólífuolíu og síðan með lambakjötskryddinu og salti og pipar. Leggið lærið yfir grænmetið. Bakið lærið í sjö klukkustundir í ofnpotti. Það er ágætt að stinga hitamæli í lærið. Þegar það hefur náð 60-65 gráðu kjarnhita þá er lærið tilbúið. Það er gott að stilla ofninn á 220° (Grill) þegar 20 mínútur eru eftir af steikingartímanum, þá verður puran dökk og stökk. Njótið með ljúffengri sveppasósu.


Ljúffeng piparostasósa
  • 1 askja sveppir
  • smjörklípa
  • salt og nýmalaður pipar
  • ½ piparostur, smátt skorinn
  • 500 ml rjómi eða matreiðslurjómi
  • 1/2 - 1 kjúklinga eða nautakraftsteningur

Aðferð:
Skerið sveppina smátt og steikið upp úr smjöri, kryddið til með salti og pipar. Bætið rjómanum, ostinum og krafti saman við og leyfið sósunni að malla í rólegheitum við vægan hita eða þar til osturinn er bráðnaður.


Berjadesertinn hennar ömmu
  • 1 askja jarðarber
  • 1 askja bláber
  • 2 msk. Sykur



Aðferð: Skerið jarðarberin í tvennt og blandið þeim saman við bláberin, sáldrið sykrinum yfir berin og geymið þau í kæli í lágmark 3 klst. Berið fram með rjóma eða ís. Það er ljúffengt að rífa niður smá súkkulaði og dreifa yfir berin í lokin.  

Sannkölluð lúxus máltíð. Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

Út að hlaupa

 Íslenska hlaupabókin 'Út að hlaupa' kom út á dögunum. Höfundar bókarinnar eru þær Elísabet Margeirsdóttir og Karen Kjartansdóttir. Ég er stórhrifin af bókinni. Einstaklega fróðleg bók fyrir þá sem hafa áhuga á hlaupum.  Í bókinni er fjallað um æfingaáætlanir, hlaupabúnað, styrktaræfingar, mataræði og meira til. Mér finnst mjög gaman að hlaupa, en ég er ein af þeim sem dett úr hlaupagírnum af og til. Það er kannski vegna þess að stundum byrjar maður of hratt og springur of fljótt. Það eru mörg góð ráð í bókinni og ég er nú þegar búin að tileinka mér nokkur ráð sem hafa virkað vel fyrir mig. Með því að fylgja þessum ráðum þá vona ég auðvitað að hlaupagleðin haldi sér jafnt og þétt yfir árið.

 Bókin er tilvalin fyrir þá sem eru að byrja að hlaupa og þá sem eru lengra komnir. Ég mæli eindregið með að þið nælið ykkur í eintak og farið út að hlaupa... hér getið þið keypt bókina. 

 Ég ætla að deila nokkrum hlaupalögum með ykkur eins og ég hef nú gert áður, þetta eru þau lög sem ég hlusta mest á um þessar mundir þegar ég fer út að hlaupa. 


xxx

Eva Laufey Kjaran

Tuesday, October 22, 2013

Helgin mín í myndum

Helgin var sérstaklega fljót að líða að þessu sinni, ég og amma komum hingað til Noregs á föstudaginn og förum heim í dag. Þetta hefur verið dásamlegt frí með fjölskyldunni og mikið sem ég hlakka til að fá þau öll heim um jólin, það styttist nú í það. 

Svona frí eru alltaf svo fljót að líða og ég væri nú alveg til í að vera nokkra daga til viðbótar, en en.  Ég tók mikið af myndum eins og ég geri nú alltaf, ég ætla að deila nokkrum með ykkur... eða já nokkrum. Hér kemur myndaflóð. 

Steindór Mar elsti prinsinn minn fór með mér í göngutúr í fallega haustveðrinu


Kristían Mar Kjaran sælkeri var ánægður með kaffihúsaferð

Kristían, amma Rósa og Daníel Mar í stuði
Eva Laufey Kjaran og Kristían Mar Kjaran

Amma mín Stína og Maren Rós systir mín 



Helgarbrönsinn og eftirrétturinn eitt kvöldið, kaffi-súkkulaðimús með jarðarberjum. Uppskriftin kemur fljótlega inn á bloggið. 

Það er svo afskaplega huggulegt hér í kotinu og ég naut þess að skoða haust matreiðslublöðin

Litlu gaurarnir mínir yfir sig ánægðir að fá ömmu Stínu í heimsókn 

Alltaf tilefni til þess að skála 


Mæðgurnar fínu 





Heitt súkkulaði með risastórum sykurpúða eftir göngutúr í Stavanger, þegar ég segi göngutúr þá meina ég búðarráp

Mamma mín yndislega 

Ég er voðalega ánægð með ferðina. Heppin ég að eiga svo góða fjölskyldu. 

xxx

Eva Laufey Kjaran



Monday, October 21, 2013

Tedrykkja

Ég er mikil kaffimanneskja og veit fátt betra en að fá mér góðan kaffibolla, mér finnst ég drekka of mikið af kaffi suma daga og hef verið að prófa mig áfram í tedrykkju. Ég hef ekki verið mikið fyrir te, en undanfarna daga þá hef ég verið að prófa tvær tegundir af te-um sem mér líkar svakalega vel við. Celestial te. Mér finnst gott að fá mér bolla af grænu te í morgunsárið og svo bláberjate á kvöldin. 

Bláberjate, þetta er ótrúlega gott te. Lyktin er líka alveg dásamleg. 

Grænt te, mér finnst orðið voða fínt að fá mér einn bolla af grænu tei í morgunsárið. 
Ég vona að þið eigið góðan dag kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Friday, October 18, 2013

Dásamlegt helgarfrí

 Gleðilega helgi kæru lesendur. Vikan leið svo fljótt, ég hef ekki haft tíma til þess að líta inn á bloggið í vikunni. Mér finnst það voðalega leiðinlegt að ná ekki að setja inn eins og eina uppskrift eða þá bara rétt til þess að segja hæ við ykkur. Það hefur verið mikið að gera í vikunni og ég vona að þið fyrirgefið mér bloggleysið, bráðlega verður nýja útlitið á blogginu tilbúið svo þá verður enn skemmtilegra að blogga fyrir ykkur. 

Nú eru örfáir dagar í að fyrstu matreiðsluþættir mínir fari í loftið, ég get nú alveg sagt ykkur að ég er með mööörg fiðrildi í maganum. Ég er voða spennt og aðvitað pínu stressuð. Ég vona innilega að þið hafið gaman af. :-) Hér getið þið séð stiklu úr fyrsta þættinum. Við tókum upp fleiri þætti í vikunni og þetta verður skemmtilegra með hverjum þættinum - ég er svo ósköp þakklát að fá að gera það sem mér þykir skemmtilegt. 

Matargleði Evu, bókin mín er tilbúin og er nú á leið í prentun. Við kláruðum hana alveg í vikunni og er ég ótrúlega ánægð með útkomuna. Það verður mikið gaman að fá hana í hendurnar, mjög fljótlega. 

Ég og amma tókum skyndiákvörðun í vikunni um að skella okkur til Noregs að hitta fólkið okkar. Helgin byrjaði því eldsnemma hjá okkur í morgun og nú sit ég hér í makindum mínum heima hjá systur minni í Noregi með fjölskyldu minni. Kósí kvöld framundan, sushi, kínverskur matur og hvítvín í huggulegum félasskap. Gerist nú varla betra.


Kynning á þættinum ' Í eldhúsinu hennar Evu' í Fréttablaðinu í vikunni. 
Nokkrar haustlegar uppskriftir sem ég deildi með lesendum Morgunblaðsins í dag, 18.okt. 

Góða helgi elsku þið og vonandi eigið þið góða helgi framundan með fólkinu ykkar. 

xxx


Eva Laufey Kjaran

Friday, October 11, 2013

Bleikur föstudagur



Það hefur sjálfsagt ekki farið framhjá mörgum að í dag er bleikur föstudagur, það er svo gaman að sjá hvað það eru margir sem taka þátt. Ég á ósköp fáar flíkur sem eru bleikar en ég  fór í bleikum íþróttafötum í þrektíma í morgun svo það telst vonandi með. Ég drekk í staðinn eingöngu bleika drykki í dag, ég byrjaði daginn á því að fá mér bleikan boozt og auðvitað læt ég uppskrift fylgja með. Ég vil einnig vekja athygli á því að í kvöld þá dreg ég út vinningshafa í gjafaleiknum hér á blogginu. Ég hvet ykkur til þess að taka þátt :-) 10 þús króna gjafabréf í Kosti og sælkeramáltíð á Lemon. 

 Bleikur og gordjöss

2 dl frosin blönduð ber 
1 dl fersk eða frosin hindber
1 lítil dós hreint jógúrt frá Bio-Bú
1/2 banani 
2 msk. Chia fræ sem legið hafa í möndlumjólk í 10 mínútur
160 ml. möndlumjólk (sjá hér uppskrift)
smá agavesíróp eða hunang (1/2 tsk)

Aðferð:

Allt sett í blandarann og hrært vel saman í nokkrar mínútur, hellið í fallegt glas og njótið. 

 .
 Ég gerði stóran skammt af boozti i morgun svo ég drakk það aftur í hádeginu og fékk mér hrökkbrauð með ljúffengu áleggi. Ég vona að þið eigið ljúfan föstudag framundan. Minn dagur hefur farið í bókhaldsfjör og fundir eftir hádegi og svo er komið helgarfrí. Dejligt. 

Góða helgi kæru þið.

xxx

Eva Laufey Kjaran

Wednesday, October 9, 2013

Heimatilbúin möndlumjólk og ljúffengur Chia grautur með mangóbitum.

Í síðustu viku hélt Ebba Guðný fyrirlestur hér á Akranesi. Hún fór yfir allskyns grunnatriði hvað varðar góða heilsu, bæði andlega og líkamlega. Hún fór yfir hvar við fáum lífsnauðsynlega fitu, góð prótein, hreinan mat og góð hráefni úr jurtaríkinu sem skipta okkur svo miklu máli. Þetta var mjög fróðlegur fyrirlestur, Ebba er líka svo dásamleg svo það var mikil ánægja að sitja fyrirlestur hjá henni. Ég var yfir mig spennt þegar ég var búin á námskeiðinu, ég dreif mig heim og undirbjó morgunmatinn fyrir næsta dag. Ég mæli með að þið farið á námskeið hjá henni Ebbu. Hér getið þið skoðað vefsíðuna hjá henni. 


Heimatilbúin möndlumjólk og ljúffengur Chia grautur með mangóbitum.

Ég sá einfalda uppskrift að möndlumjólk hjá vinkonu minni henni Edit og ákvað að prófa. 
Ég var mjög ánægð með útkomuna og það er gaman að búa til sína eigin mjólk. 

Möndlumjólk

 1 dl möndlur (ég notaði hýðislausar)
4 dl vatn 

Aðferð: 

Látið möndlurnar liggja í vatni í 15 - 20 mínútur. Hellið vatninu frá og setjið möndlunar í blandara, bætið 4 dl af vatni saman við og hrærið í nokkrar mínútur í blandaranum. Hellið mjólkinni í gegnum sigti en Ebba sagði að það væri líka alveg eins gott að drekka mjólkina án þess að sigta hana. Ég prófa það næst. Mjólkin geymist í kæli í 2 sólarhringa. 

Chia grautur

'Chia fræin eru ein kraftmesta, hentugasta og næringarríkasta ofurfæðan á markaðinum í dag.  Þau eru frábær uppspretta af andoxunarefnum, heilpróteinum, vítamínum og steinefnum. Þau eru einnig ríkasta plöntuuppspretta omega-3 fitusýra sem að vitað er um.'

Ég er mjög hrifin af Chia fræjum og þessi grautur er mjög góður að mínu mati, ég á mjög auðvelt með að borða hann í morgunsárið.

2 msk. Chia fræ
200 ml. möndlumjólk
Mangó

Aðferð:

Látið Chia fræin liggja í möndlumjólkinni í lágmark 20 mínútur. Mér finnst best að leyfa þeim að liggja í mjólkinni yfir nótt. Það er rosalega gott að skera ávexti og þá sérstaklega mangó í litla bita og setja út í grautinn, algjört sælgæti. Ég mæli með að þið prófið þennan graut. 

Ég vona að þið eigið góðan miðvikudag framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

Monday, October 7, 2013

Kjúklingasúpa og Rice Krispies kakan góða.




Mexíkósk kjúklingasúpa

Mexíkósk kjúklingasúpa er líklega sú súpa sem ég elda oftast og fæ aldrei nóg af. Þegar von er á
gestum er einstaklega gaman að bjóða upp á þessa matarmikla súpu og bera hana fram með nachos
flögum, sýrðum rjóma og rifnum osti, þá geta matargestir bætt út í þeim hráefnum sem þeim
hugnast best. Súpan er einföld og bragðgóð, en er sjaldnast eins því ég hef gaman af því að prófa mig
áfram og nota það sem til er af grænmeti hverju sinni.
  • 4 kjúklingabringur, smátt
  • skornar (eða heill kjúklingur,
  • skorinn í litla bita)
  • 1 rauð paprika, smátt skorin
  • 1 græn paprika, smátt skorin
  • 1 gul paprika, smátt skorin
  • 2 gulrætur, smátt skornar
  • ½ blaðlaukur, smátt skorinn
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 laukur, smátt skorinn
  • ½ rautt chili, fræhreinsað og
  • smátt skorið
  • 2 msk olía
  • 2 dósir saxaðir tómatar
  • 2 kjúklingakraftsteningar
  • 2-3 msk karrí
  • örlítið kjúklingakrydd
  • 2-2½ lítri vatn
  • 1 peli rjómi
  • 1 dós tómatpúrra
  • ½ flaska Heinz Chili tómatsósa
  • 200 g hreinn rjómaostur
  • salt og nýmalaður pipar

Hitið olíu á pönnu við vægan hita, saxið grænmetið smátt og steikið í smástund á pönnunni, bara rétt til að fá örlítinn gljáa. Setjið grænmetið í stóran pott, bætið vatninu, tómatpúrru, tómatsósunni, karrí, kjúklingateningum og söxuðum tómötum saman við, leyfið þessu að malla á meðan þið steikið kjúklinginn.
Skerið kjúklinginn í litla bita og steikið á pönnu upp úr olíu í stundarkorn, kryddið til með kjúklingakryddi, salti og pipar. Bætið kjúklingnum við súpuna. Látið hana sjóða við vægan hita í
10-15 mínútur. Að lokum er rjóminn og rjómaosturinn settur saman við. Gefið ykkur góðan tíma til að laga súpuna, látið hana malla aðlágmarki í 30 mínútur. Ég leyfi henni oft að sjóða við vægan hita í
um það bil klukkustund, en þess þarf auðvitað ekki. Bragðbætið
súpuna að vild, sumir vilja hafa karrí eða meiri pipar. Mikilvægt er að prófa sig áfram.




Rice Krispies kaka með
bönunum og karamellusósu

Þessi kaka er í algjörum sérflokki, hún er bæði einföld og svo gómsæt. Ég smakkaði hana fyrst fyrir
nokkrum árum í kökuklúbbi sem við vinkonurnar stofnuðum á sínum tíma og ég kolféll fyrir henni.
Enda erfitt að standast þá freistingu þegar Rice Krispies og gott súkkulaði er sett saman.


Botn

  • 100 g smjör
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g Mars súkkulaðistykki
  • 4 msk síróp
  • 5 bollar Rice Krispies
  • 1 peli rjómi
  • Karamellusósa
  • 1 poki Góa kúlur
  • ½ dl rjómi


aðferð:

Bræðið smjör við vægan hita, setjið súkkulaðið saman við og
leyfið því að bráðna. Bætið sírópinu því næst við og hrærið vel
saman, passið að hafa vægan hita svo blandan brenni ekki. Þegar
allt er orðið silkimjúkt er gott að blanda Rice Krispies út í.

Hellið blöndunni í form og leyfið botninum að kólna í kæli í að
minnsta kosti 15 mínútur. Skerið tvo banana og setjið þunnar sneiðar yfir botninn. Þeytið rjómann og dreifið yfir botninn.

Karamellusósa

Bræðið Góa kúlurnar við vægan hita í rjómanum. Setjið karamellusósuna
í kæli í stutta stund áður en þið setjið hana ofan á rjómann. Mjög mikilvægt er að sósan sé ekki of heit þegar hún er sett á rjómann því hætt er við að rjóminn bráðni og það viljum við svo sannarlega ekki. 

Sunday, October 6, 2013

Safar, boozt og skemmtilegur gjafaleikur! 10.000 króna inneign hjá Kosti og sælkeramáltíð hjá Lemon.

Mér finnst voða gott að byrja daginn á að búa mér til góðan safa eða gott boozt. Ég geri alltaf svolítið mikið svo ég á nóg til í ísskápnum. Það er gaman að prófa sig áfram í safa- og booztgerð. Ég á nokkra uppáhalds og ég ætla að deila með ykkur uppskrift að sex drykkjum sem ég mæli með að þið prófið.

Avókadó drykkurinn góði
Berja booztið dásamlega
Sá græni og góði
Rauðrófusafinn fallegi
Græn orkubomba
Appelsínu-og gulrótarsafi 
Ég mæli með að þið prófið ykkur áfram í boozt-og safagerð. Það er einfaldara en margan grunar, það eina sem til þarf eru góðir ávextir og blandari. Í samstarfi við Kost og Lemon þá ætla ég að gefa heppnum lesanda 10.000 króna gjafabréf hjá Kosti, þar er frábært úrval af ávöxtum og grænmeti. Á fimmtudögum er 50% afsláttur af ávöxtum og grænmeti. Ég mæli þess vegna með að þið nýtið gjafabréfið á fimmtudögum. 

Sælkerasamloku- og djússtaðurinn Lemon ætlar einnig að gefa þessum heppna lesanda sælkeramáltíð á Lemon. Það er dásamlegt að fá sér góðan safa og góða samloku á Lemon. Mitt uppáhald er Djangó safinn og Parmella samlokan. 

Það eina sem þú þarft að gera lesandi góður til þess að eiga möguleika á því að næla þér í gjafabréfin er að skrifa nafn og netfang í athugasemdakerfið hér fyrir neðan og gefa blogginu like á Facebook, ef þú ert nú þegar búin/n að gefa blogginu like þarftu einungis að skrifa nafn og netfang í athugasemdakerfið. Ég dreg út heppinn vinningshafa föstudaginn 11.október! 


Bestu kveðjur til ykkar 

xxx

Eva Laufey Kjaran 

Myndir af Instagram @evalaufeykjaran

1. Mexíkósk veisla sem verður í bókinni Matargleði Evu sem fer að koma út. 
2. Mamma og amma, hvar væri ég án þeirra? Þær hjálpuðu mér svo mikið við gerð bókarinnar, ég kláraði að taka myndir og elda réttina í þarsíðustu viku og auðvitað skáluðum við fyrir því.

 3. Sátt og sæl eftir fyrsta tökudaginn, þættirnir ' Í eldhúsinu hennar Evu' hefjast fljótlega á Stöð3.
4. Okkur systrum þykir ekki leiðinlegt að borða, ljúft deit með Eddu á Austurlensku Hraðlestinni.
5. Bleikur og góður boozt
6. Gummi bróðir minn og kærastan hans voru að fá sér þennan fallega hund, hún Þoka mín er sætust.

 7. Helgin er búin að vera virkilega ljúf, laugardagsbröns er nauðsyn. 
8. Ég og Haddi fórum í hjólatúr í góða veðrinu í dag, fallegt veður. 

Ég vona að helgin ykkur hafi verið góð. Nú ætla ég að skottast yfir til ömmu og hjálpa til við sunnudagssteikina, þvílík forréttindi að eiga svo góða ömmu og afa. 

xxx

Eva Laufey Kjaran