Það einfalda er stundum það besta. Uppskriftirnar sem ég ætla að deila með ykkur í dag eiga það sameiginlegt að vera einfaldar, fljótlegar og ótrúlega góðar. Ég bauð fjölskyldu minni upp á þessa rétti í vikunni og þau voru voða ánægð með matinn. Ég ætlaði að vera búin að setja inn þessa uppskrift fyrir helgi en náði því miður ekki. Í dag er laugardagur og þá er svo sannarlega tilefni til þess að gera vel við sig og sína, takkóveisla með góðu meðlæti og góður félagsskapur er uppskrift að góðu kvöldi.
Takkógratín
fyrir þrjá til fjóra
1 msk. ólífuolía
1 rauðlaukur, smátt skorinn
1/2 rautt chili, smátt skorið
3 hvítlauksrif, pressuð
1 rauðlaukur, smátt skorinn
1/2 rautt chili, smátt skorið
3 hvítlauksrif, pressuð
2 - 3 meðalstórar gulrætur, smátt skornar
600 g nautahakk
1 rauð paprika, smátt skorinn
1 græn paprika, smátt skorinn
1 lítil dós gular baunir eða aðrar baunir sem ykkur finnst góðar
1 dós hakkaðir tómatar
1 poki Taco spice mix
3 - 4 dl. vatn
1/2 tsk. cumin(ísl.Broddkúmen)
nokkrir sveppir, smátt skornir (má sleppa, smekksatriði)
1 msk. ferskur kóríander, smátt saxaður
salt og pipar, magn eftir smekk
saltaðar nachosflögur
rifinn ostur
ferskur kóríander
Aðferð:
1. Við byrjum á því að hita olíu við vægan hita á víðri pönnu.
2. Steikjum laukinn, chili, hvítlaukinn og gulrætur í smá stund.
3. Bætum nautahakkinu því næst saman við (þið getið auðvitað notað hvaða hakk sem ykkur finnst best). Kryddið til með salti og pipar.
4. Ég notaði Taco spice mix að þessu sinni. Bætið kryddinu saman við og vatni, blandið öllu vel saman. Svo bætum við restinni af hráefnunum saman við, hrærum vel í og kryddum til með salti og pipar. Gott er að leyfa þessu að malla við vægan hita í 15 - 20 mínútur.
5. Hitið ofninn í 180°C. Hellið blöndunni í eldfast mót. Stingið mörgum nachosflögum meðfram forminu. Sáldrið ferskum osti yfir réttinn og í lokin er gott að saxa niður ferskann kóríander og setja smá ofan á. Bakið í ofni í 10 - 12 mínútur eða þar til osturinn er gullinbrúnn.
Ég er ferlaga hrifin af takkógratíni, það er svo einfalt, fljótlegt og gómsætt. Mér finnst voða gott að bera það fram með gvakkamóle, fersku salsa, sýrðum rjóma og fersku salati.
Hér kemur uppskrifin að gvakkamóle og fersku salsa.
Gvakkamóle 'guacamole'
Ég gæti borðað gvakkamóle alla daga með öllu, mér þykir það svo afskalega gott. Það er fátt betra en að fá sér gvakkamóle með söltuðum nachosflögum.
2 meðalstórar lárperur, vel þroskaðar.
Safi úr einni límónu
1 rautt chili, fræhreinsað
Handfylli af kóríander
¼ tsk. cumin (ísl.Broddkúmin)
2- 3 hvítlauksrif
1 meðalstór rauðlaukur
Salt og pipar, magn eftir smekk
2 ferskir tómatar
Aðferð:
Setjið allt í matvinnsluvél og blandið vel saman þar til þetta verður að
fínu mauki. Kryddið til með salti og pipar. Skerið ferska tómata í litla bita og blandið saman við með sleif. Setjið í skál og berið strax fram.
Ferskt salsa ' Pico de gallo'
4 tómatar skornir í litla bita
½ rauðlaukur, saxaður mjög smátt
2 msk. fínsaxaður kóríander
Maldon salt
Safi úr einni límónu.
Blandið öllu vel saman sem er í uppskriftinni og geymið í kæli í 30 mínútur.
Ég vona að þið njótið vel og ég mæli með að þið prófið þessar uppskriftir.
xxx
Eva Laufey Kjaran
Ég myndi alltaf setja allan safann með! Ertu enn að Villi minn?
ReplyDeleteKv. Páll Ásgeir