Tuesday, October 1, 2013

Steiktur fiskur með jógúrtsósu og fersku grænmeti.

Október genginn í garð, tíminn líður svo hratt. Nú eru margir að byrja í átaki því október er  meistaramánuður hjá svo mörgum, mér finnst það skemmtilegt. Ég ætla auðvitað að reyna að vera með líka, ég á bara svo ótrúlega erfitt með að vera í sérstöku átaki. Mér finnst súkkulaðimolinn svo góður. En allt er gott í hófi, hreyfing er nauðsynleg og fjölbreytt matarræði er það líka. Það þýðir þó ekki að við þurfum að banna okkur allskyns ljúfmeti. ;) Í október ætla ég að borða meira af fisk og grænmeti, ég er virkilega hrifin af fisk og gæti auðveldlega borðað hann á hverjum degi. Að matreiða fisk er einnig góð skemmtun, það er hægt að matreiða hann á svo marga vegu.  Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að steiktum fisk með karrí og sinnepsdufti. Ég var virkilega ánægð með þennan fiskrétt og langar þess vegna að deila honum með ykkur. 


Ljómandi góður steiktur fiskur
fyrir þrjá til fjóra 

2 - 3  ýsuflök (eða annar fiskur sem ykkur þykir góður) 
5 dl. hveiti
1 msk. karrí
1 msk. sinnepsduft 
2 msk. fersk smátt söxuð steinselja
salt og nýmalaður pipar, magn eftir smekk
2 egg + smávegis af mjólk
olía 

Aðferð: 

1. Við byrjum á því að hita olíu við vægan hita á pönnu.
2. Skolum fiskinn og skerum hann í bita. Blöndum hveitinu og kryddum saman. Pískum egg léttilega saman við 1 dl af mjólk. Veltum fisknum upp úr eggjablöndunni og síðan hveitiblöndunni. 
2. Steikjum fiskinn í olíunni í smá stund, sirka tvær mínútur á hvorri hlið. 

3. Þá er komið að því að láta fiskinn í eldfast mót, ég skar niður nokkra tómata og lét þá einnig í eldfasta mótið. Setjið fiskinn inn í ofn í 10 - 12 mínútur. Mér finnst gott að láta smá smjörklípu út á fiskinn áður en hann fer inn í ofn, smjörið er alltaf svo gott. :) 


Meðlætið var afskaplega einfalt, fiskurinn er svo góður að allt annað er aukaatriði. Ég var með létta jógúrtsósu og ferskt salat. Ég hugsa að nýjar kartöflur væru líka mjög góðar með. 

Jógúrtsósa

6 - 7 dl. létt ab-mjólk
safi úr 1/2 límónu
2 msk. fersk steinselja, smátt söxuð
1 hvítlauksrif, pressað
1 tsk. agavesíróp
salt & pipar, magn eftir smekk

Blandið öllu saman í skal, geymið í kæli þar til þið ætlið að bera sósuna fram. Þessi sósa hentar vel með öllum fisk og kjúklingaréttum. 

Ferskt og gott salat, ég nota alltaf bara það sem ég á til í ísskápnum hverju sinni. Í þessu salati skar ég niður lárperu, mangó, agúrku, tómata og notaði klettasalat. Blanda öllu saman í skál, læt fetaost saman við og krydda alltaf smávegis með salti og pipar. 

Fljótlegt, einfalt og gott! 

Ég vona að þið prófið þessa uppskrift og ég vona að þið njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

2 comments:

  1. Æðislegur rèttur!! Takk fyrir uppskriftina.

    ReplyDelete
  2. Virkilega gott. Hreinlega hvarf af diskunum.

    ReplyDelete