Thursday, December 11, 2014

Jólasnúðar og sölt karamellusósa.



Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að klassískum kanilsnúðum með jólakeim. Fyllingin er jólaleg að því leytinu að ég notaði kryddin sem ég nota við piparkökubakstur. Ef það er eitthvað jólalegt þá er það ilmurinn af piparkökum. Ég bjó til karamellusósu og ristaði heslihnetur sem ég bar fram með snúðunum. Heit karamellusósan fullkomnaði snúðana og þeir hurfu mjög fljótt. Ég mæli með að þið prófið þessa uppskrift kæru vinir.


Jóla kanilsnúðar

Deig:

  • 550 g Kornax hveiti
  • 100 g sykur
  • 1 tsk. vanillusykur
  • 2,5 tsk. ger
  • 250 ml volg mjólk
  • 70 ml bragðlítil olía (alls ekki ólífu olía)
  • 2 Brúnegg








Fylling:
  • 50 g sykur
  • 100 g smjör
  • 2 tsk. kanill
  • 1 tsk. negull
  • ½ tsk. engifer





Aðferð: Blandið öllum þurrefnum saman og bætið vökvanum smám saman við deigið og hnoðið vel. Breiðið röku viskustykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 – 40 mínútur á hlýjum stað. Á meðan deigið er að hefa sig er gott að útbúa fyllinguna.
Setjið öll hráefnin í pott og hitið við vægan hita eða þar til blandan fer að þykkna.
Þegar deigið hefur hefað sig er það flatt út og smurt með fyllingunni. Deiginu er svo rúllað út og skorið í hæfilega marga bita. Setjið bökunarpappír í ofnskúffu, raðið snúðunum á pappírinn og leggið rakt viskustykki yfir þá. Leyfið þeim að standa í 30 mínútur áður en þeir fara inn í ofn. 

Bakið snúðana við 180°C í 13 – 15 mínútur. Berið snúðana fram með saltri karamellusósu og ristuðum heslihnetum. 





Sölt karamellusósa

Þetta er sósan sem þið verðið að prófa. Hún passar vel með kökum og eftirréttum, og í raun gæti ég borðað hana eina og sér. Það er meðal annars mjög sniðugt að gefa sælkeranum í fjölskyldunni þessa sósu í jólagjöf. Sósan geymist í ísskáp í tvær vikur. Það er ágætt að hita hana aðeins upp áður en þið berið hana fram. Ég þori að lofa ykkur því að þið kaupið ekki aftur tilbúna sósu þegar þið hafið útbúið ykkar eigin.

Hráefni:
  • 200 g sykur
  • 2 msk smjör
  • ½  - 1 dl rjómi
  • ½ tsk salt (sjávarsalt er best að mínu mati)





Aðferð: Setjið sykurinn á pönnu og bræðið hann við vægan hita. Gott er að hafa ekki of háan hita og fara hægt af stað. Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við og hrærið vel. Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er þykk og fín. Í lokin bætið þið saltinu saman við. Það er líka afskaplega gott að rista hnetur og bæta út í sósuna. 




Njótið dagsins með fjölskyldu og vinum.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment