Sölt karamellusósa
Þetta er sósan sem þið verðið að prófa. Hún passar vel með kökum og eftirréttum, og í raun gæti ég borðað hana eina og sér. Það er meðal annars mjög sniðugt að gefa sælkeranum í fjölskyldunni þessa sósu í gjöf. Sósan geymist í ísskáp í tvær vikur. Það er ágætt að hita hana aðeins upp áður en þið berið hana fram. Ég þori að lofa ykkur því að þið kaupið ekki aftur tilbúna sósu þegar þið hafið útbúið ykkar eigin.
Hráefni:
- 200 g sykur
- 2 msk smjör
- ½ - 1 dl rjómi
- ½ tsk salt (sjávarsalt er best að mínu mati)
Aðferð: Setjið sykurinn á pönnu og bræðið hann við vægan hita. Gott er að hafa ekki of háan hita og fara hægt af stað. Takið pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við og hrærið vel. Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er þykk og fín. Í lokin bætið þið saltinu saman við. Það er líka afskaplega gott að rista hnetur og bæta út í sósuna.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
No comments:
Post a Comment