Friday, December 19, 2014

Toblerone marengsterta.


Ég er afskaplega mikið fyrir góðar marengstertur og þessi er sú allra besta. Ég fékk þessa uppskrift hjá Eddu systur minni. Hún hlýtur að vilja deila henni með ykkur, hún fær engu um það ráðið blessunin. Þessi terta er svakalega einföld og góð, ef ykkur finnst marengs, rjómi og súkkulaði gott þá ættu þið að prófa þessa uppskrift. Það er tilvalið að bera þessa tertu fram sem desert á jólunum eða einfaldlega með kaffinu um helgina. Marengsterta er alltaf góð hugmynd. Ég mæli einnig með því að þið frystið tertuna. Ég er einmitt með eina í frystinum sem ég ætla að bjóða mínu fjölskyldunni upp á um jólin, þetta getur nefnilega líka verið ljúffeng ísterta.
Toblerone marengsterta
Fyrir 8 - 10 

Botnar:
  • 4 Brúnegg eggjahvítur
  • 4 dl púðursykur

Aðferð: Stillið ofn á 110°C. Setjið bökunarpappír á ofnplötu eða bökunarpappír í botninn á tveimur 22 cm lausbotna formum og smyrjið hliðarnar með smjöri. Þeytið eggjahvíturnar og bætið sykri saman við í smáum skömmtum. Stífþeytið þar til blandan hreyfist ekki til í skálinni sé henni hvolft. Skiptið marengsblöndunni á bökunarpappírinn eða í formin og bakið í 1 ½ klst við 110°C.

Toblerone kremið góða.
  • 500 ml rjómi
  • 2 Brúnegg eggjarauður
  • 4 tsk flórsykur
  • 1 tsk vanillusykur eða dropar
  • 150 g Toblerone, smátt saxað


Aðferð:  Þeytið eggjarauður og flórsykur saman þar til eggjablandan verður ljós og létt. Þeytið rjóma og bætið eggjablöndunni varlega saman við rjómann með sleif ásamt vanillu. Í lokin fer súkkulaðið dásamlega út í rjómablönduna. Setjið kremið á milli botnanna og ofan á. Skreytið kökuna með ferskum berjum og nokkrum súkkulaðibitum.

Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment