Friday, December 5, 2014

Piparkökuís uppskrift

Það er fastur liður á mörgum heimilinum fyrir jólin að útbúa jólaís. Á mínu heimili hefur aldrei verið sérstök eftirréttahefð en tengdamóðir mín býr alltaf til svo góðan ís og í ár langaði mig til þess að gera minn eigin sem ég ætla að bjóða upp á jólunum. Ég notaði grunnuppskrift frá Ingibjörgu, tengdamóður minni en það er ein eggjarauða á móti einni matskeið af sykri og þeyttur rjómi. Magnið fer svo eftir því hvað þið ætlið að gera mikið af ís. Piparkökur eru algjört lostæti og eru sérstaklega góðar í þessum ís, en þið getið auðvitað bætt t.d. súkkulaði eða karamellu út í ísinn. Ég mæli þó með að þið prófið þessa uppskrift, silkimjúkur ís og "crunch" af piparkökunum. Ég bauð upp á salta karamellusósu með ísnum, það er miklu einfaldara að útbúa eigin karamellusósu en ykkur grunar. Mér dettur ekki í hug að kaupa tilbúna sósu þegar ég er fimm mínútur að útbúa sósuna mína. Þið verðið auðvitað að prófa.

Njótið vel. 

Piparkökuís
Fyrir 6 - 8
Hráefni:
  • 10 Brúnegg eggjarauður (ég notaði eggjahvíturnar í marengs botna) 
  • 10 msk sykur
  • 1 tsk vanilla extract eða vanillusykur
  • 400 ml rjómi, þeyttur
  • 250 g piparkökur (myljið kökurnar)
Aðferð: Þeytið eggjarauðurnar og sykurinn þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu og piparkökumylsnu út í eggjablönduna og hrærið vel saman. Þeytið rjóma og blandið honum varlega saman við með sleif. Hellið blöndunni í form og frystið í lágmark sólarhring. Berið ísinn gjarnan fram með saltri karamellusósu.
xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

No comments:

Post a Comment