Saturday, March 21, 2015

Mexíkósk pizza

Um helgar þá nýt ég þess að borða eitthvað gott og á föstudögum finnst mér eiginlega nauðsynlegt að fá mér pizzu, það eru örugglega margir sem borða pizzu á föstudagskvöldum enda er ágætt að enda vinnuvikuna á góðum mat og sjónvarpsglápi fram eftir kvöldi, það er ekkert verra að maula á súkkulaði á meðan. Ég útbjó gómsæta mexíkóska pizzu sem mig langar að deila með ykkur, ég var svöng þegar ég fór í búðina og keypti allt það sem mig langaði í. Það er auðvitað lykilregla að fara ekki út í búð svöng, ég keypti allt í taco og þegar heim var komið ákvað ég að útbúa pizzu með mexíkósku ívafi. Einföld og bragðmikil pizza sem ég mæli með að þið prófið.


Ítalskur pizzabotn 
 Þessi uppskrift er aftan á hveitipokanum sem ég nota yfirleitt þegar ég baka pizzur og brauð, mjög góð uppskrift.

500 g Kornax hveiti (Í bláu pökkunum)
2,5 dl volgt vatn
7,5 g þurrger
0,5 dl olía
1 tsk sjávarsalt
1 tsk sykur

Aðferð:

  1. Gerið er leyst upp í volgu vatni 
  2. Kornax hveiti, sykri, salti og olíu er bætt í og hnoðað í vél í um það bil 6 - 10 mínútur. 
  3. Deigið er látið standa í 45 - 60 mínútur við stofuhita og pizzabotn mótaður.
  4. Setjið fyllinguna á pizzuna og bakið við 180°C (blástur) í 15 - 18 mínútur eða þar til botninn er gullinbrúnn, ég tók botninn minn út of snemma og þess vegna er hann í ljósari kantinum. 
Mexíkósk hakkblanda 

olía 
1 rauðlaukur, smátt saxaður
1 msk vorlaukur, smátt saxaður
6 - 8 sveppir, smátt skornir
500 g nautahakk
salt og nýmalaður pipar 
taco spice mix, ég notaði frá Santa Maria
2 dl vatn
2 dl sýrður rjómi 

Aðferð: 
  1. Hitið olíu á pönnu og steikið laukana þar til þeir eru mjúkir
  2. Bætið sveppum út á pönnuna og hakkinu
  3. Kryddið til með salti, pipar og taco kryddblöndu
  4. Þegar hakkið er alveg að verða tilbúið er gott að hella vatninu og bæta sýrða rjómanum saman við en með því að bæta sýrða rjómanum út á pönnuna verður hakkið safaríkara og bragðbetra. 
  5. Dreifið hakkinu yfir pizzabotninn, sáldrið vel af osti yfir hakkið. Ég noti bæði venjulegan ost og mexíkóost sem ég var búin að rífa niður. 

Þegar pizzan kom út úr ofninum skar ég niður paprikur, ólífur, tómata, ferska steinselju og lét ofan á pizzuna. Í lokin sáldraði ég nachos flögum og hellti smávegis af sýrðum rjóma yfir pizzuna. Algjört lostæti. 





Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


No comments:

Post a Comment