Ég fékk mikla löngun í vöfflur og rjóma í morgun, það er auðvitað fátt betra en ilmurinn af nýbökuðum vöfflum. Við erum í góðu yfirlæti á Akranesi hjá henni mömmu og í kaffitímanum vorum við með vöfflupartí. Sunnudagar eru til þess að njóta. Ég mæli með þessum vöfflum og karamelliseraðar pekanhnetur eru auðvitað út úr þessum heimi góðar, ég segi ykkur það satt.
Vöfflur með vanillurjóma og karamelliseruðum pekanhnetum
- 4 Brúnegg
- 400 ml súrmjólk
- 300 g Kornax hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 2 msk sykur
- 1/2 tsk salt
- 2 tsk vanilludropar
- 4 msk smjör, brætt
Aðferð:
- Þeytið egg og súrmjólk saman.
- Blandið þurrefnum saman í skál, bætið eggjablöndunni og smjörinu saman við og hrærið vel saman.
- Hitið smá smjör í vöfflujárninu og steikið hverja vöfflu í nokkrar mínútur. Berið fram með vanillurjóma, sultu og karamelliseruðum pekanhnetum.
Karamelliseraðar pekanhnetur
- 1 poki pekanhnetur
- 50 g sykur
- 1 msk smjör
- rjómi, magn eftir smekk
Aðferð:
- Bræðið sykur á pönnu.
- Þegar sykurinn er uppleystur bætið þið smjörinu út á pönnuna og hrærið í. Saxið hneturnar og setjið út á pönnuna, steikið í 1 - 2 mínútur. Hellið rjóma út á blönduna og hrærið aðeins saman.
Vanillurjómi
- 250 ml rjómi
- 2 tsk vanillusykur
Aðferð:
1. Setjið rjóma og sykur í skál og þeytið þar til rjóminn er orðinn léttþeyttur.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
No comments:
Post a Comment