Sunday, March 22, 2015

Möndlukakan hennar mömmu


Möndlukakan hennar mömmu vekur upp skemmtilegar minningar úr æsku en mér þótti engin kaka jafn góð og möndlukakan með bleika kreminu. Mamma bakaði þessa köku í vikunni og hún kláraðist mjög fljótt, það var þess vegna alveg tilvalið að baka hana aftur í gær og deila uppskriftinni með ykkur. Mamma er ein af þeim sem fylgir sjaldan uppskrift og bakar og eldar eftir minni, ég náði þó að fullkomna uppskriftina og kakan heppnaðist mjög vel. Það er eitthvað við þessa silkimjúku köku sem ég fæ bara ekki nóg af og það virðast flestir vera á sama máli. Þessi kaka er ofureinföld, fljótleg og algjörlega ómótstæðileg. 

Ef þið viljið slá í gegn í sunnudagskaffinu þá mæli ég með þessari. 


Möndlukakan hennar mömmu

200 g flórsykur
200 g smjör, við stofuhita
2 Brúnegg
230 g Kornax hveiti 
1 tsk lyftiduft 
1 tsk möndludropar
1 1/2 dl sjóðandi heitt vatn 

Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 175°C. 
  2. Hrærið flórsykri, smjöri og eggjum saman í 2 - 3 mínútur eða þar til blandan verður orðin létt og ljós. 
  3. Bætið hveiti og lyftidufti út í blönduna og hrærið vel. 
  4. Hellið möndludropum og vatni saman við í lokin og hrærið vel eða þar til deigið verður slétt og silkimjúkt. 
  5. Smyrjið hringlaga form og hellið deiginu í formið, bakið við 175°C í 30 mínútur. 
Kælið kökuna á meðan þið útbúið bleika kremið. 

Bleikur glassúr
 Það sem einkennir möndlukökuna góðu er bleiki fallegi glassúrinn. 


50 g smjör, brætt
150 - 200 g flórsykur
Vatn eftir þörfum
Möndludropar, magn eftir smekk (c.a. 1/2 teskeið)
Bleikur matarlitur, magn eftir smekk (þið getið líka notað Ríbena sólberjasafa)

Aðferð:
  1. Bræðið smjör í potti. 
  2. Blandið flórsykrinum saman við og hrærið stöðugt, bætið vatninu saman við og hrærið þar til þið eruð ánægð með áferðina á kreminu. 
  3. Ég setti smávegis af möndludropum í kremið en það er smekksatriði. 
  4. Hellið kreminu yfir kökuna og berið strax fram. 





Njótið vel kæru lesendur. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir

10 comments:

  1. á að vera einhver matarlitur í kreminu? Uppá að fá það bleikt?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Ég steingleymdi að taka það fram. Takk fyrir ábendinguna, ég bæti því við ;-)

      Delete
  2. Besta Möndlukaka sem ég hef smakkað :)

    ReplyDelete
  3. Hvað heldur þú að hún geymist lengi? :)

    ReplyDelete
    Replies
    1. Hún hverfur svo fljótt þegar ég baka hana að ég hef ekki látið á það reyna hvað hún geymist lengi :o) Mér finnst líklegt að hún geymist í 2 - 3 daga að minnsta kosti.

      Delete
  4. Hvað notar þu stort kökumót?

    ReplyDelete
  5. Hvað er kökumótið stórt sem þú notar �� finnst svo voðalega oft vanta að það sé gefið upp ��. En annars frábært Blogger hjá þér , er búin að prófa mikið af uppskriftum frá þér ��

    ReplyDelete
  6. Ég bakaði þessa í dag og hún er að verða búin. Mjög góð !

    ReplyDelete
  7. Afhhverju skilur kremið sig hjá mer? Semsagt smjörið skilur sig við restina :/

    ReplyDelete