Sunday, April 12, 2015

Gómsætir ostaréttir sem kitla bragðlaukana


Í síðasta þætti af Matargleði Evu heimsótti ég mygluostabú MS í Búðardal og fékk að fylgjast með ostaframleiðslunni. Hér eru tveir ostaréttir sem eru ofboðslega góðir og ég fæ ekki nóg af. Ofnbakaðir ostar eru hreint afbragð og ostasalatið er fullkomið á veisluborðið. 

Gómsætir ostaréttir sem ég mæli með að þið prófið. 


Ofnbakaður Stóri Dímon

1 Stóri Dímon
2 msk ólífuolía
1 hvítlauksrif, marið 
1 msk smátt saxað rósmarín

Aðferð: 

Blandið olíu, hvítlauk, rósmaríni og ögn af salti saman í skál. Stingið hníf í ostinn og snúið aðeins upp á hnífinn, hellið blöndunni yfir ostinn. Bakið við 180°C í 8 - 10 mínútur eða þar til osturinn er orðinn gylltur. 

Gott að vita! Það er hægt að baka ostinn í öskjunni sem hann kemur í. Það getur samt komið fyrir að askjan sem osturinn kemur í brotni í ofninum en þá er ágætt að setja öskjuna ofan í eldfast mót en þannig tryggjum við að osturinn haldi sér á sínum stað. 




Ostasalatið sem slær alltaf í gegn 

1 Mexíkóostur
1 Hvítlauksostur
1 dós sýrður rjómi
1 dós Grískt jógúrt 
1/4 púrrulaukur, smátt saxaður 
1 rauð paprika, smátt skorin
rauð vínber, skorin í tvennt 


Aðferð:

Skerið púrrulauk eftir endilöngu, skolið og skerið síðan í litla bita. Skerið paprikuna einnig mjög smátt og vínberin í tvennt. Blandið sýrða rjómanum og gríska jógúrti saman við og bætið ostinum saman við í lokin, mér finnst best að skera hann fremur smátt. Blandið öllu vel saman og berið fram með góðu brauði eða kexi. Salatið er betra ef það fær að vera í kæli í klukkustund áður en það er borið fram. 


Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


No comments:

Post a Comment