Popp með saltaðri karamellusósu
Á þriðjudögum er
ég með innslög í Íslandi í dag þar sem ég elda rétti sem allir ættu að geta
leikið eftir. Í gær var ég til dæmis með rétti sem tilvalið er að borða þegar
við horfum á sjónvarpið. Auðvitað kom popp fljótlega upp í huga þegar ég var að
plana hvað ég ætti að hafa í innslagi kvöldsins. Ég held að popp sé alveg
skothelt sjónvarpssnarl og hvað þá ef við ‘pimpum’ það aðeins upp með djúsí
saltaðri karamellusósu. Svona í alvöru talað þá er þetta eitt það besta sem ég
hef smakkað, ég fæ ekki nóg af þessu poppi og hvet ykkur til þess að prófa
þessa einföldu og ljúffengu uppskrift.
Söltuð karamellusósa
100 g sykur
3 msk smjör
½ - 1 dl rjómi
(má vera meira ef þið viljið þynnri sósu)
Sjávarsalt
1 poki popp eða einn meðalstór pottur af poppi
Aðferð: Setjið sykurinn á pönnu og bræðið hann
við vægan hita. Gott er að hafa ekki of háan hita og fara hægt af stað. Takið
pönnuna af hellunni þegar sykurinn er allur bráðinn og bætið smjörinu saman við
og hrærið vel. Hellið rjómanum út í karamelluna og hrærið þar til karamellan er
þykk og fín. Í lokin bætið þið saltinu saman við.
Hellið sósunni yfir poppið, mér finnst best
að gera það í skál og færið síðan poppið yfir í aðra skál sem þið ætlið að bera
það fram í. Einfalt, fljótlegt og sjúklega gott.
Njótið vel kæru vinir.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
No comments:
Post a Comment