Wednesday, October 28, 2015

Ofnbakaðar brauðsnittur í einum grænum



Ég fékk vinkonur mínar í sunnudagskaffi um daginn og ákvað að gera nokkrar snittur, mér finnst nefnilega mikilvægt að hafa eitthvað brauðmeti á boðstólnum og þá sérstaklega ofnbakað. Með öllum sætu kökunum þarf að vera brauðbiti inn á milli, til að jafna þetta út. Ég elska góða osta og ákvað að gera einfaldar brauðsnittur með Dala Koll og mangó chutney. Snitturnar kláruðust og ég á eftir að gera þessar oftar en einu sinni í viðbót. Mig langar líka að búa til mitt eigið mangó chutney í bráð, en það fær að bíða aðeins til betri tíma og auðvitað fáið þið að fylgjast með því þegar ég ræðst í það verkefni. 


Ofnbakaðar brauðsnittur með hvítmygluosti og mangó chutney


  • 1 snittubrauð
  • Dala kollur 
  • Mangó chutney 
  • Steinselja
Aðferð:

1. Skerið snittubrauðið í jafn stórar sneiðar. 
2. Leggið eina til tvær ostsneiðar yfir hverja brauðsneið.
3. Setjið góða matskeið af mangó chutney yfir ostinn. 
4. Bakið við 180°C í 5 - 7 mínútur eða þar til osturinn verður gullinbrúnn. 
5. Skreytið snitturnar með steinselju og berið strax fram. 

Ofboðslega einfalt og gott. Tilvalið þegar þið eigið von á gestum með skömmum fyrirvara eða þegar þið viljið gera vel við ykkur á köldu vetrarkvöldi.





Það þarf ekki að vera flókið að útbúa veitingar og svona réttir slá alltaf í gegn.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.



No comments:

Post a Comment