Sunday, October 4, 2015

Bestu kanilsnúðarnir með súkkulaðiglassúr




 Alþjóðlegi kanilsnúðadagurinn er í dag, hvorki meira né minna! Því ber að fagna. Ég bakaði þessa snúða í morgun og vorum við fjölskyldan voða ánægð með þá, Ingibjörg Rósa er lasin og fékk aðeins að smakka. Henni fannst það ekkert mjög leiðinlegt að fá smá smakk, mömmuhjartað verður alltaf svo viðkvæmt þegar hún er veik og brosin hennar eru best. 

Kanilsnúðalyktin gerir heimilið líka svo huggulegt og nú er ég að læra undir lokapróf sem er á morgun og ég er ekki frá því að lyktin hjálpi til í lærdómnum, ég fæ mér líka einn og einn snúð eftir glósulestur... það má, ég er löngu hætt að telja snúðana sem ég er búin að borða í dag;) 

Mæli með að þið prófið þessa og þetta er fullkominn innidagur, þá er bakstur eina vitið. 

Deig:

2 3/4 dl  volgt vatn 
2 1/2 tsk þurrger 
1 msk sykur eða hunag 

650 - 750 g Kornax hveiti 
3 msk sykur
1/2 tsk salt
1 3/4 dl mjólk, volg
75 g smjör, við stofuhita (verður að vera mjög mjúkt)

Fylling:

100 g smjör
2 tsk kanill
1 tsk vanillusykur
2 msk sykur

Ofan á:

1 Brúnegg
Aðferð: 

Glassúr:

100 g smjör
300 g flórsykur
1 tsk vanillusykur
2 msk kakó
1 - 2 msk sterkt uppáhellt kaffi

  1. Fyrsta skrefið er að vekja þurrgerið í volgu vatni með 1 msk af sykri eða hunangi.  Blandið þessum hráefnum saman í skál og leggið viskastykki yfir skálina. Þetta ferli tekur um 5 - 7 mínútur. 
  2. Blandið öllu saman í skál, eins og stendur hér að ofan þá gæti verið að þið þurfið að nota meira en minna af hveiti. Best er að setja 650 grömm og síðan bætið þið meiri hveiti smám saman við. Ég hnoða deigið í hrærivélinni í 5 - 6 mínútur en auðvitað getið þið notað hendurnar. 
  3. Setjið viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í 30 - 40 mínútur. 
  4. Þegar deigið er búið að hefast þá er það flatt út á borðflöt og það er alltaf gott að sáldra smá hveiti á borðflötin áður en þá festist deigið ekki við borðið.
  5.  Smyrjið smjöri á deigið og það er mikilvægt að smjörið sé við stofuhita. 
  6. Blandið kanil, vanillusykri og sykri saman í skál, sáldrið yfir smjörið og rúllið deiginu upp.
  7. Skerið í jafn stóra bita og leggið snúðana á pappírsklædda ofnplötu. 
  8. Pískið eitt egg og penslið yfir snúðana. Bakið við 180°C í 12 - 14 mínútur. 
  9. Á meðan snúðarnir eru í ofninum er sniðugt að búa til glassúr, bræðið smjör í potti og blandið síðan öllum hráefnum saman. Þið stjórnið þykktinni með vökva magni en mér finnst betra að hafa kremið svolítið þykkt og þá læt ég minna af kaffinu. Þetta er auðvitað smekksatriði. 
  10. Leyfið snúðunum að kólna í smá stund áður en þið setjið á þá glassúr. 
  11. Njótið strax... helst með ískaldri mjólk.











 Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

4 comments:

  1. Hvað færðu marga snúða úr þessari uppskrift? :)

    ReplyDelete
  2. Er þetta rétt að það er fyrst 1 mskeið sykur og svo 3 mskeiðar sykur ? eða á þetta að vera eitthvað annað hráefni?

    ReplyDelete
    Replies
    1. Sæl Aldís. Já þetta er rétt, 1 msk af sykri eða hunangi blandar þú saman við þurrgerið og vatnið. Restin af sykrinum fer beint í deigið :)

      Delete