Thursday, February 7, 2013

Ofnbökuð ýsa í kókossósu.

Dagarnir eru virkilega fljótir að líða og það er mikið að gera, ég hef ekki náð að sinna blogginu nægilega vel þessa vikuna en ég vona að þið fyrirgefið mér það. Það hefur ekki gefist mikill tíma til þess að dúllast í eldhúsinu en mikið sem ég er heppin að hafa mömmuna mína á landinu. Það eru sko algjör forréttindi að koma heim eftir langan dag í mömmumat. Það gerist aldeilis ekki betra. Í vikunni náði ég þó að elda ljúffengan fiskrétt handa okkur, amma og afi komu líka í mat og við vorum öll sammála um að þetta væri virkilega góður réttur. Við sátum lengi við matarborðið, borðuðum á okkur gat og spjölluðum um allt sem hægt var að spjalla um. Að mínu mati eru bestu stundirnar með fjölskyldunni við matarborðið. 

Ofnbökuð ýsa í kókossósu
1 msk. Ólífuolía
1 tsk. Smjör
800 g ýsa
250 g rækjur
1 dós kókosmjólk
½ blaðlaukur, skorinn í litla bita
8  - 10 meðalstórir sveppir
1 ½ msk smátt söxuð steinselja
1 tsk ítölsk sjávarkryddblanda
Salt og pipar

1.       Hitið olíu og smjör í pönnu við vægan hita.
    2. Skerið blaðlauk og sveppi niður og steikið í smá stund. 
 3.       Skolið rækjurnar vel og bætið þeim saman við. Bætið steinselju og kryddinu við, blandið þessu vel saman.
4.       Bætið kókosmjólk út í og leyfið þessu malla við vægan hita í 6 – 8 mínútur. Mikilvægt að smakka sig til, kryddið vel með salti og pipar. 
 5.       Skolið fiskinn mjög vel, skerið flökin í litla bita og raðið þeim í eldfast mót.
   Hellið rækju-og kókosblöndunni yfir fiskinn. Það er mjög gott að dreifa rifnum osti yfir réttinn, magnið fer þá eftir smekk. Setjið fiskréttinn inn í ofn við 180°C 20 mínútur.
6.       Ristið kókosflögur á pönnu og dreifið yfir fiskinn þegar þið berið hann fram. 
 Smjörsteiktar kartöflur með steinselju henta mjög vel með þessum fiskrétt. Sjóðið kartöflurnar, hitið smjör við vægan hita og setjið steinseljuna saman við. Afhýðið kartöflurnar og steikið þær upp úr smjörinu í smá stund. Þannig verða þær stökkar að utan og mjúkar að innan. 
Kryddið þær til með salti og pipar. 

Ferskt og litríkt salat. Klettasalat, avókadó, paprika, fetaostur , kirsuberjatómatar og ristaðar kókosflögur.
 Mæli með að þið prufið þessa uppskrift og njótið kæru vinir. 

Ég vona að þið eigið ljúfan dag framundan. 

xxx

Eva Laufey Kjaran

1 comment:

  1. Hæ, þetta hljómar vel! En það vantar magn kókósmjólkur í innihaldslýsingu :)
    Kveðja, Harpa.

    ReplyDelete