Saturday, February 9, 2013

Vatnsdeigsbollur með súkkulaðifyllingu og berjafyllingu.

Það styttist í bolludaginn dásamlega. Ég held mikið upp á bolludaginn þar sem ég veit fátt betra en mjúkar vatnsdeigsbollur með rjómafyllingu og góðu kremi. Vatnsdeigsbollur bjóða upp á marga möguleika og það er mjög gaman að prufa sig áfram. Þessi uppskrift að vatnsdeigsbollum kemur úr Gestgjafanum og mér finnst hún mjög góð. 

Ég mæli svo sannarlega með að þið setjið upp betri svuntunar í dag og hefjið bollubakstur. 

Vatnsdeigsbollur
9 - 12 bollur

50 g smjör
2 dl vatn 
100 g hveiti 
3 meðalstór egg
 1. Bræðið smjörið með vatninu og látið sjóða vel í blöndunni.
2. Bætið hveitinu út í. 3. Hrærið vel saman með sleif, þar til deigið er sprungulaust. Látið deigið kólna í smástund áður en þið bætið eggjum saman við. 
 4. Bætið eggjum út í, einu í einu. Hrærið vel í á milli svo þið fáið sprungulaust deig. Deigið á að vera svolítið stíft. Mótið bollurnar með tveim skeiðum.
 Setjið 9 - 12 bollur á smjörpappírsklædda bökunarplötu. Bakið bollurnar við 200 hita í 20 - 15 minútur. Ekki opna ofninn á meðan bakstrinum stendur. 
Kælið bollurnar vel áður en þið setjið rjóma og krem á þær. 
Vatnsdeigsbollur með súkkulaðifyllingu og Marssósu.

10 - 12 vatnsdeigsbollur

Marssósa 

2 Mars stangir
2, 5 dl rjómi
70 g suðusúkkulaði

Bræðið við vægan hita, hrærið vel í á meðan. 

Súkkulaðifylling

 2 dl rjómi, þeyttur
3 msk Marssósa, kæld. 

Þeytið rjóma og kælið 3 matskeiðar af Marssósu. Blandið sósunni varlega saman við þeytta rjómann með sleif. 

Skerið bollurnar eftir endilöngu (botn og lok). Setjið súkkulaðifyllinguna á botninn og lokið ofan á. Hellið Marssósunni yfir lokið og spænið Mars súkkulaði yfir bollurnar með t.d. ostaskera.



 Vatnsdeigsbollur með berjafyllingu og dökku súkkulaði.

10 - 12 vatnsdeigsbollur 

Berjafylling

4 dl rjómi 
1 msk flórsykur
100 g hindber

Þeytið rjóma og bætið flórsykri saman við í lokin, merjið berin saman með gaffli og bætið maukinu rólega saman við rjómann með sleikju. Smyrjið kreminu á milli botnanna. 

Bræðið dökkt súkkulaði, ca. 150 g yfir vatnsbaði og dýfið lokunum ofan í súkkulaðið. 
Skreytið ef til vill með smá sykurskrauti, mér finnst það svolítið sætt. 

Ég vona að þið eigið ljúfan sunnudag framundan kæru vinir. 

xxx
Eva Laufey Kjaran

No comments:

Post a Comment