Helgarbaksturinn er að þessu sinni ljúffeng súkkulaðikaka með karamellusósu og pekanhnetum, já ég legg ekki meira á ykkur. Þessi kaka sameinar það sem mér þykir svo gott, súkkulaði og pekanhnetur. Kakan er ekki bara bragðgóð heldur er hún líka svo einföld og fljótleg í bakstri, það er alltaf plús. Þið getið þess vegna léttilega byrjað að baka núna og borðað hana með kaffinu klukkan fimm, eða þá haft hana sem eftirrétt í kvöld já eða bara baka hana og borða þegar ykkur langar til. Fullkominn endir á helginni myndi ég segja. Ég vona að þið njótið vel.
Ég bakaði þessa köku seinast á 17.júní og að sjálfsögðu var nauðsynlegt að skreyta hana.
Hér kemur uppskriftin.
Frönsk súkkulaðikaka með karamellusósu og pekanhnetum.
Botn:
- 200 g sykur
- 4 Brúnegg
- 200 g suðusúkkulaði
- 200 g smjör
- 3 msk hveiti
Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180°C (blástur).
2. Þeytið sykur og egg þar til blandan verður létt og ljós.
3. Bræðið smjör og súkkulaði við vægan hita. (leggið til hliðar)
4. Blandið hveitinu við eggjablönduna, sumir vilja sleppa hveitinu en þá verður kakan sérstaklega blaut.
5. Bætið súkkulaðiblöndunni varlega saman við í lokin.
6. Smyrjið bökunarfom eða setjið eins og mér þykir best bökunarpappír í botninn á forminu og hellið deiginu í formið.
7. Bakið kökuna í 25 - 30 mínútur.
Karamellusósa
5 msk sykur
50 g smjör
rjómi, magn eftir smekk
Aðferð:
1. Bræðið sykurinn á pönnu, þegar hann er uppleystur þá bætið þið smjörinu út á pönnuna. Takið blönduna af hitanum, hrærið stanslaust og hellið rjómanum út á. Karamellusósan er tilbúin þegar sósan fer að þykkna.
2. Dreifið pekanhnetum yfir kökuna og hellið sósunni yfir. Setjið aftur inn í ofn í 3 - 4 mínútur.
3. Berið kökuna gjarnan fram með rjóma eða ís.
Ég vona að þið hafið átt stórgóða helgi í blíðunni.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.
No comments:
Post a Comment