Sunday, June 14, 2015

Kanilsnúðakaka með súkkulaðiglassúr
Sumarið er loksins komið og það er yndislegt. Nú er tilvalið að skella í þessa einföldu kanilsnúðaköku og bera fram í kaffitímanum úti á palli. Þessa dagana er ég með æði fyrir kanilsnúðum og hef prófað margar uppskriftir, þessi er sú besta og kanilsnúðarnar eru svo mjúkir og góðir. Mér finnst ómissandi að setja súkkulaðiglassúr ofan á mína snúða en þess þarf þó ekki en súkkulaði gerir auðvitað allt aðeins betra. Ef þið eruð á leiðinni í ferðalag þá er ekki galið að taka þessa með, það geta flestir verið sammála um að kanilsnúðar séu ljúffengir og enginn fær leið á þeim. 


2 3/4 dl  volgt vatn 
2 1/2 tsk þurrger 
1 msk sykur 
700 - 800 g Kornax brauðhveiti (það gæti þurfti meira eða minna)
3 msk sykur
1/2 tsk salt
1 3/4 dl mjólk, volg
75 g smjör, við stofuhita (verður að vera mjög mjúkt)

Aðferð: 

 1. Vekjið þurrgerið í volgu vatni og 1 msk af sykri. Það getur tekið um það bil 5 - 7 mínútur, um leið og það byrjar að freyða í blöndunni þá er gerið tilbúið. 
 2. Blandið öllu saman í skál, eins og stendur hér að ofan þá gæti verið að þið þurfið að nota meira eða minna af hveiti, um leið og deigið er ekki eins klístrað þá getið þið byrjað að hnoða í nokkar mínútur. 
 3. Setjið viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að standa við stofuhita í 10 - 15 mínútur. 
 4. Útbúið fyllinguna en ég blandaði saman 100 g af smjöri, 100 g af sykri, smávegis af vanillusykri og nóg af kanil. Mér finnst best að hita blönduna í potti en þess þarf ekki. 
 5. Stráið smávegis af hveiti á borðflöt og fletjið deigið út, smyrjið deigið með fyllingunni og rúllið deiginu upp. Skerið í nokkra snúða en ég fékk um það bil 16 snúða. 
 6. Þið getið annaðhvort sett snúðana á pappírsklædda ofnplötu eða raðað þeim í eldfast mót þannig að þetta verður kanilsnúðakaka, bakið við 180°C í 18 - 20 mínútur. 
 7. Þegar kanilsnúðarnir voru tilbúnir þá leyfði ég þeim að kólna í svolitla stund og útbjó á meðan súkkulaðiglassúr. Blandið saman flórsykri, kakó og bræddu smjöri þar til þið eruð ánægð með þykktina á kreminu. 
 8. Dreifið kreminu yfir eða smyrjjið á snúðana. Berið strax fram og njótið vel.  

 Ég vona að þið eigið ljúfan dag í þessu dásamlega veðri.

xxx

Eva Laufey Kjaran HermannsdóttirAllt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.3 comments:

 1. Er ekki í lagi að nota spelt hveiti í staðin fyrir Kornax hveiti?

  ReplyDelete
  Replies
  1. Sæl Sigríður. Það er örugglega í fína lagi að nota speltmjöl, sjálf hef ég ekki prófað það í þessa uppskrift en það væri forvitnilegt að vita hvernig útkoman verður ef þú bakar speltsnúða. Það þarf sennilega að breyta hlutföllum varðandi vökvann, gæti verið að þú þurfir meiri mjólk.

   Bestu kveðjur,

   Eva

   Delete
  2. Sæl! Ég setti helming af kornax hveiti og helming af spelt hveiti og það kom bara mjög vel út!

   Delete