Wednesday, September 30, 2015

Mexíkósk pizza með djúsí ostasósu á örfáum mínútum


Mexíkóskur matur er í sérstöku uppáhaldi hjá mér og fæ aldrei leið á þessum góða mat, möguleikarnir eru líka svo margir sem gerir þessa matargerð enn betri. Ég sá sérstakar pizza tortillur út í búð um daginn og var ekki lengi að grípa þær með mér ásamt öðru góðu hráefni. Ég útbjó mjög einfalda pizzu og það var frekar fínt að sleppa við að baka venjulegan pizzabotn, stundum er maður einfaldlega ekki í stuði fyrir mikið tilstand í eldhúsinu. Botninn var þunnur og stökkur en þannig finnst mér pizzabotnar bestir. Pizzan var einstaklega ljúffeng og þið ættuð að prófa þessa uppskrift.





Mexíkósk pizza með kjúkling og djúsí ostasósu 

  • 2 tortilla pizzakökur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 mexíkóostur, rifinn
  • salt og nýmalaður pipar
  • 500 – 600 g kjúklingakjöt t.d. úrbeinuð kjúklingalæri
  • 2 msk. Mexíkósk kryddblanda
  • 1 rauð paprika, smátt skorin
  • Salt og nýmalaður pipar

Tillögur að áleggi; lárpera, salsa sósa, sýrður rjómi og smátt saxaður kóríander.

Aðferð:

  1. Leggið kjúklingalæri eða annað kjúklingakjöt í eldfast mót og kryddið til með bragðmikilli kryddblöndu. Eldið í ofni við 180°C í 20 mínútur. (fer auðvitað eftir þykktinni á kjúklingakjötinu) 
  2. Á meðan kjúklingurinn er í ofninum blandið þið sýrða rjómanum og nýrifnum mexíkóosti  saman í skál og kryddið til með salti og pipar.
  3. Smyrjið tortillakökur með ostasósunni (ég keypti sérstakar pizza tortillur í Hagkaup, þær eru aðeins þykkari).
  4. Skerið papriku og kjúklingakjöt í litla bita og dreifið yfir ostasósuna.
  5. Bakið í ofni við 180°C í ca. 5 – 7 mínútur. Þegar pizzan er tilbúin er gott að skera niður avókadó, tómata, ferskt kóríander og dreifa yfir. Einnig finnst mér algjört æði að mylja niður Nachos flögur og sáldra yfir. Einföld og stórgóð máltíð sem öllum í fjölskyldunni þykir góð. 




Mæli svo sannarlega með að þið prófið þessa, hún er mjöööög góð.

Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


No comments:

Post a Comment