Tuesday, December 8, 2015

Bakaðu þitt eigið rúgbrauð fyrir jólin


Um helgina hélt ég lítið aðventuboð fyrir fjölskylduna mína og bauð þeim meðal annars upp á nýbakað rúgbrauð sem smakkaðist ótrúlega vel. Góðar uppskriftir eru eins og fjársjóður og var ég svo heppin að fá uppskriftina að rúgbrauðinu hjá ömmu hans Hadda. Þetta var í fyrsta skipti sem ég baka rúgbrauð og þetta er mun einfaldara en mig grunaði. Uppskriftin er stór og tilvalið að skera brauðið niður og frysta, já eða pakka því fallega inn og gefa með jólapakkanum. 

Einfalt og stórgott rúgbrauð sem allir ættu að prófa fyrir jólin. 

Rúgbrauð frá ömmu Möggu 


** 1 bolli = 2 dl 
  • 15 bollar Kornax rúgmjöl (í brúnu pokunum) 
  • 3 bollar Kornax hveiti (í rauðu pokunum)
  • 2 bollar sykur 
  • 1 bolli síróp
  • 20 teskeiðar lyftiduft 
  • 1 tsk salt 
  • 2 L nýmjólk 
Aðferð: 
  1. Hitið ofninn í 100°C (ég notaði blástur)
  2. Blandið öllum hráefnum vel saman, þið þurfið stórt fat. Það getur verið svolítið stíft að hræra hráefnum saman en takið ykkur bara góðan tíma, þetta kemur allt með kalda vatninu. 
  3. Smyrjið stórt eldfast mót með loki (ég notaði það svarta hér að neðan sem er til á flestum heimilum). Það er líka hægt að baka brauðið í mjólkurfernum. 
  4. Hellið deiginu í formið og setjið lokið á. Bakið við 100°C í 12 klukkustundir.
Berið fram með smjöri og einhverju góðu. 





Ingibjörg Rósa var voða hrifin af brauðinu enda mikið matargat eins og mamma sín ;) 




Aðventuboð á Rekagrandanum. Í vikunni birti ég svo fleiri jólalegar uppskriftir meðal annars af graflaxinum sem ég bauð upp á og purusteikinni sem ég elska. 

Ég vona að þið eigið góðan þriðjudag framundan kæru vinir. 

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir




Allt hráefnið sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups. 


No comments:

Post a Comment