Tuesday, December 22, 2015

Súkkulaði panna cotta með heitri berjasósuÍtalir eru ekki eingöngu þekktir fyrir gott pasta og góðar pizzur en eftirréttirnir þeirra eru guðdómlegir. Einn af mínum eftirlætis eftirréttum er súkkulaði Panna Cotta með berjasósu, þið getið auðveldlega skipt dökka súkkulaðinu út fyrir hvítt súkkulaði. Mér finnst mjög fínt að bera fram þennan eftirrétt í veislum, sér í lagi vegna þess að ég get gert hann kvöldinu áður og það minnkar stressið sem kemur stundum upp þegar von er á mörgum í mat. Það er nefnilega svo fínt að undirbúa nokkra rétti fyrirfram og þessi er einmitt þannig að hann er betri því lengur sem hann fær að vera í kælinum, upplagt að gera hann kvöldinu áður og leyfa honum að jafna sig í rólegheitum yfir nótt. 

Sannkölluð súkkulaðisæla sem allir elska. 

 Súkkulaðibúðingur með heitri berjasósu

 • 500 ml rjómi
 • 150 g suðusúkkulaði 
 • 2 msk sykur
 • fræin úr 1 vanillustöng 
 • 2 plötur matarlím
Aðferð: 

Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í 4 – 6 mínútur.
Á meðan hitið þið rjóma að suðu og bætið súkkulaði saman og bræðið í rólegheitum.
Hrærið í á meðan og þegar súkkulaðið er bráðnað bætið þið sykri og vanillu saman við,  í lokin kreistið þið vökvann frá matarlímsblöðum og hrærið út í vanillublönduna.
Hellið í skálar og geymið í kæli að minnsta kosti í tvær til þrjár klukkustundir, best  yfir nótt. 

Heit berjasósa með vanillu 
 • 3 dl bláber 
 • 3 dl hindber 
 • 2 dl sykur 
 • safinn og börkur af hálfri appelsínu 
 • ½ tsk kanill
 • fræin úr 1 vanillustöng  
Aðferð: 

Setjið öll hráefnin í pott og náið upp suðu, leyfið sósunni að malla í 3 – 5 mínútur. Berið fram með súkkulaðibúðingnum og njótið vel. 


Njótið vel.

xxx

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir


Allt hráefni sem notað er í þessa uppskrift fæst í verslunum Hagkaups.

2 comments:

 1. This comment has been removed by the author.

  ReplyDelete
 2. Sæl, fyrir hversu marga miðast þessi uppskrift við?
  Langar til að prófa þetta, en þarf að gera fyrir 8, er það þá tvöföld uppskrift ?

  kv. Hafliði

  ReplyDelete