Thursday, December 17, 2015

Piparkökubollakökur með ómótstæðilegu karamellukremi


Það er einungis vika í aðfangadag og eflaust margir í miklu bakstursstuði þessa dagana, þetta er nefnilega tíminn til að njóta. Ég elska að koma heim eftir vinnu, kveikja á kertum og baka eitthvað gott með Ingibjörgu Rósu minni. Við bökuðum þessar ljúffengu piparkökubollakökur um daginn og þær voru virkilega góðar og skemmtileg tilbreyting frá klassísku piparkökunum. Einföld, fljótleg og góð uppskrift sem ég mæli með að þið prófið fyrir jólin. Endilega fáið börnin ykkar til þess að taka þátt í bakstrinum, þau eru nefnilega svo miklir snillingar og hafa gaman af þessu. 


Piparkökubollakökur með karamellukremi 

ca. 18 - 20 bollakökur
 • 250 g sykur
 • 140 g smjör, við stofuhita
 • 3 egg við stofuhita
 • 250 g Kornax hveiti 
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 dl rjómi
 • 2 tsk vanilla extract eða vanillusykur (það er líka gott að nota fræin úr vanillustöng)
 • 1 tsk kanill
 • ½ tsk malaður negull
 • ½ tsk hvítur pipar
 • ½ tsk engifer krydd
 • Bollakökuform


Aðferð: Hitið ofninn í 180°C. Þeytið saman smjör og sykur í um það bil þrjár mínútur, bætið einu og einu eggi saman við. Þeytið vel á milli. Sigtið saman hveiti og lyftiduft, bætið hveitiblöndunni, vanillu, rjómanum og kryddum saman við eggjablönduna og þeytið mjög vel í nokkrar mínútur þar til blandan verður silkimjúk. Skiptið deiginu niður í bollakökuform og bakið við 180°C í 15 - 18 mínútur. Kælið kökurnar mjög vel áður en þið smyrjið á þær krem.

Karamellukrem
 • 200 g smjör, við stofuhita
 • 400 g flórsykur
 • 4 msk þykk karamellusósa t.d. dulce de leche
 • ½ tsk kanill
 • 1 tsk vanilla extract eða vanillu sykur


Aðferð: Þeytið smjör og flórsykur saman í nokkrar mínútur, því lengur sem þið hrærið kremið því betri áferð verður á því. Bætið karamellu, kanil og vanillu út í og þeytið enn betur í 2 - 3 mínútur. Setjið kremið í sprautupoka og skreytið kökurnar að vild. Það er afar gott að rífa niður smá súkkulaði og skreyta kökurnar með súkkulaðibitum eða ferskum berjum.
Njótið vel. 

xxx

Eva Laufey Kjaran HermannsdóttirÖll hráefnin sem voru notuð í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.

1 comment:

 1. namm hvað þessar eru girnilegaar! Hvar færðu svona stór muffins form?
  kv. Elísabet

  ReplyDelete