Þetta er litli gríslingurinn minn á öskudaginn, hún Ingibjörg Rósa var svo dásamleg í þessum kjól með þessi krúttlegu eyru að mamman átti ekki orð. Þessa dagana eru grísir í miklu uppáhaldi og búningurinn vakti mikla lukku hjá dömunni minni. Hún er orðin eins og hálfs árs og gleður alla í kringum sig á hverjum degi, við Haddi erum einstaklega heppin. Á morgun byrjar hún svo í leikskóla sem verður ekkert smá skemmtilegt, að vísu finnst mér tíminn alltof fljótur að líða og ég finn að maður þarf svo sannarlega að njóta stundarinnar núna.
Að því sögðu langar mig að deila með ykkur uppskrift að æðislegri súkkulaðiköku sem allir elska, einföld skúffukaka sem tekur enga stund að búa til og tilvalið að baka í dag á sjálfum valentínusardeginum. Ég hef gaman af öllum dögum sem minna okkur á að veita fólkinu okkar sérstaka athygli. Það er brjálað að gera hjá öllum á hverjum degi og stundum gleymast einfaldir hlutir eins og bara það að vera til með fólkinu okkar núna, þá er ég að meina að slökkva á tölvu, síma og sjónvarpi og setjast við borðstofuborðið og fá sér köku. Ég vona svo sannarlega að þið eigið eftir að eiga góðan dag, veðrið er æði og ég vildi gjarnan eyða deginum með fólkinu mínu en ég er að fara í hagfræði lokapróf á morgun og mun þess vegna eyða honum innandyra við lestur.
Skúffukakan sem allir elska
- 3 bollar Kornax hveiti
- 2 bollar sykur
- 3 egg
- 2 bollar hreint jógúrt
- 1 bolli ljós og bragðlítið olía
- 5 msk kakó
- 2 tsk lyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- 2 tsk vanillusykur eða dropar
Aðferð: Hitið ofninn í 180°C (blástur). Blandið öllum hráefnum saman og hrærið í nokkrar mínútur eða þar til deigið er orðið silkimjúkt. Smyrjið ofnskúffu og hellið deiginu í skúffuna. Bakið við180°C í 20 - 25 mínútur. Tíminn fer auðvitað eftir ofnum, eins og alltaf. Gott er að athuga baksturinn með því að stinga prjóni í kökuna, prjóninn á að koma hreinn út og þá er kakan klár. Leyfið kökunni að kólna áður en þið setjið á hana kremið.
Krem
- 200 g suðusúkkulaði
- 100 g smarties súkkulaði (eða annað gott, þetta var það súkkulaði sem ég átti til)
- 40 g smjör
Kókosmjöl til skrauts
Aðferð: Bræðið súkkulaði og smjör saman við vægan hita, hellið yfir kökuna og sáldrið síðan kókosmjöli yfir. Skerið kökuna í litla bita og berið fram.
Njótið vel.
xxx
Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
Öll hráefni í þessa uppskrift fást í verslunum Hagkaups.
No comments:
Post a Comment